A Muppet Family Christmas (1987)★★★★★👍👍🖖

Prúðuleikararnir ætla að eyða jólunum á sveitabæ í eigu mömmu Fossa.

Þann 25. desember 1988 var Jólahátíð Prúðuleikara á dagskrá Sjónvarpsins. Líklega eina sýningin í íslensku sjónvarpi fyrr eða síðar. Lukkulega átti ég myndbandstæki. Þannig að A Muppet Family Christmas varð jólahefð. Þetta er ekki kvikmynd í fullri lengd þannig að á mínu heimili er hún yfirleitt á dagskrá rétt áður en eldamennskan fer á fullt á aðfangadag.

Sagan er einföld. Prúðuleikararnir fara út í sveit og koma mömmu Fossa á óvart. Það sem gerir A Muppet Family Christmas nær einstaka er að hérna koma líka fram persónur úr Sesemístræti og Búrabyggð ásamt sjálfum Jim Henson.

Töfrarnir við A Muppet Family Christmas er tónlistin. Jólalög af öllu tagi sungin af Prúðuleikurum. Gömul og ný. Þarna er líka ekkijólalagið It’s in Every One of Us. Það kom áður fyrir á plötu John Denver með Prúðuleikurunum og var sungið í minningarathöfn Jim Henson (sem er þess virði að horfa á). Lagið er líka til í flutningi Freddie Mercury og Cliff Richard (ef þið bara leitið).

A Muppet Family Christmas býr í höfundaréttarhelvíti. Ekki var samið um réttinn á tónlistinni nema til sýningar í sjónvarpi þannig að allar formlegar útgáfur sem ég veit um eru styttar. Þar að auki er eiga mismunandi fyrirtæki þessar persónur í dag sem flækir málin væntanlega töluvert.

Lukkulega er til góðhjartað fólk sem hefur deilt ákaflega góðum útgáfum af A Muppet Family Christmas á netinu. Þær fyrstu sem birtust voru greinilega bara teknar af venjulegum VHS-spólum en þegar á leið virðast einhverjir hafa náð að afrita og deila útsendingareintökum sjónvarpsstöðva. Mig grunar að það sé jafnvel eitthvað pirrað innanbúðarfólk sem var ósátt við útgáfustöðuna sem sáu um að koma þessum eintökum í umferð.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 því þetta er besta jólamynd allra tíma. Allir aðdáendur verða að sjá A Muppet Family Christmas.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *