Eyes Wide Shut (1999) ★☆☆☆☆👎

Tom Cruise þjáist af kynferðislegum vanmætti og ráfar um London New York þar sem hann hittir ýmsa litríka karaktera.

Ég sá Eyes Wide Shut þegar hún kom út. Ég var ekki hrifinn. Núna sá ég hana aftur og féll ekki fyrir henni heldur. Ég reyndi að hafa augun opin fyrir að hann væri með lokuð augu en þetta er aðallega svo ógurlega langdregið.

Það hjálpar ekki að hafa Tom Cruise í aðalhlutverki. Þol mitt fyrir honum er takmarkað. Núverandi kenning mín er að Kubrick hafi dáið vegna þess að það var svo erfitt að fá hann til að leika.

Mögulega hefði Eyes Wide Shut verið betri ef hún hefði verið svona klukkutíma styttri. Það hefði mátt sleppa svona 75% af þeim tíma sem fer í að horfa á Tom Cruise í sálarkreppu og/eða labba. Það hefði verið áhugavert að sjá endurklippta útgáfu því við erum vön að sjá myndir sem Kubrick breytti eftir að þær voru komnar í sýningar.

Líklega hefði verið best ef Eyes Wide Shut hefði verið gamanmynd. Uppáhaldsatriðin mín eru fyndin. Alan Cumming náði þessu alveg. Það er líka miklu auðveldara að hlæja að Tom Cruise en að finna vott af samúð með honum.

Það er annars eitt atriði sem ég er sannfærður um að sé draumur því það er mjög greinilega tekið upp í Hamley’s í London sem er, eðli málsins samkvæmt, ekki í New York. Ég veit að Eyes Wide Shut er öll tekin í London (og nágrenni) en hve augljós er hægt að vera? Ef ekki væri fyrir Harrod’s myndi ég fullyrða að þetta væri frægasta búð borgarinnar.

Maltin gefur ★★★☆ og hefur væntanlega verið meyr vegna dauða Kubrick.

Óli gefur ★☆☆☆☆👎 og er hissa að myndin hafi ekki verið nema 160 mínútur, þetta virtist miklu lengra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *