Skannar geta haft áhrif heilastarfsemi annars fólks og þá gerist ýmislegt skuggalegt.
Einhvern veginn hafði ég aldrei séð Scanners en ég hef mjög lengi verið meðvitaður um frægasta atriði myndarinnar, jafnvel áður en vísað var í það í Wayne’s World.
Leikstjóri Scanners er David Cronenberg og því kemur ekki sérstaklega á óvart að þetta er líkamshryllingur. Mannslíkaminn fær sumsé að þola ýmislegt. Förðun og brellur eru líka það besta við myndina.
Aðalleikari Scanners er skelfilegur og nær almennt ekki að vera skemmtilega lélegur. Patrick McGoohan í hlutverki læknisins nær hins vegar ákveðnum hæðum í fáránleika sem mig grunar að hann hafi verið meðvitaður um. Michael Ironside er líka oft góður en hann varð greinilega betri seinna meir.
Scanners dansar á mörkum góðs og slæms. Helsti kostur hennar er að hún er aldrei leiðinleg. Hún hefur skemmtanagildi. Innbrot í tölvukerfi er líklega það fyndnasta í myndinni.
Maltin gefur ★★⯪☆ og hrósar brellunum þó hann kalli þær jökkí.
Óli gefur varfærnislega ★★★⯪☆👍.
