Doktorsema dreymir um að hlaupa maraþon en lendir þess í stað í hringiðu leynimakks.
Frægasta lína Marathon Man er ekki í myndinni. Dustin Hoffman hafði lært „method“ hjá leiklistarkennaranum Lee Strasberg. Ef þið þekkið það ekki þá hafið samt kannski heyrt um hvernig Daniel Day-Lewis heimtaði að fólk ávarpaði hann sem Lincoln við tökur á Lincoln.
Laurence Olivier var ekki aðdáandi „aðferðarinnar“ þannig að þegar Dustin Hoffman hafði vakið í þrjá sólarhringa af því hann vildi komast í sama hugarástand og persóna hans skaut Shakespeare-leikarinn á hann:
My dear boy, why don’t you just try acting?
Ég hef alltaf haft mínar efasemdir um þessa sögu en Dustin Hoffman hefur staðfest hana þó hann segi að fólk hafi gert meira úr atvikinu en efni stóðu til.
Aðalpersóna Marathon Man fellur fyrir konu leikinni af Marthe Keller og eltist við hana með aðferðum sem virka frekar vafasamar en mig grunar að Dustin Hoffman hafi þótt þær hversdagslegar.
Einhvern veginn náði ég að horfa á myndina í gegn án þess að fatta að aðalpersónan heitir Babe. Ég náði því samt að bróðirinn (Roy Scheider) heitir Doc.
Marathon Man er mynd með mörgum góðum atriðum og leikurum en með söguþræði sem gengur ekki sérstaklega vel upp. Mér þótti upphafssenan með New York á áttunda áratugnum í aðalhlutverki skemmtilegust.
Roy Scheider (lögreglustjórinn í Jaws) fellur svolítið í skuggann af Hoffman og Olivier. Það eru annars margir svona „hvaðan kannast ég við þennan?“ leikarar í Marathon Man. William Devane, Richard Bright og Marc Lawrence.
Treat Williams leikur víst skokkara í Marathon Man. Kannski þann sem Dustin Hoffman á í útistöðum við í upphafi myndarinnar en ég er ekki viss. Ég vissi ekki að hann væri dáinn.
Maltin gefur ★★⯪☆.
Óli gefur ★★★⯪☆👍.
