Á meðan herforingjaklíkan í Argentínu byrjar að missa stjórn á landinu fer virðuleg kona að átta sig á að það er ekki allt sem sýnist í fjölskyldu hennar.
Ég var ekki orðinn tíu ára þegar ég sá heimildarmynd um pyntingar og annan hrylling á tímum „skítuga stríðsins“ í Argentínu. Þær sögur hafa setið í mér. Við vitum ekki nákvæmlega hve mörg fórnarlömb and-kommúnistanna voru. Mögulega voru þrjátíu þúsund myrtir á þessu árum. Auðvitað var þetta meira og minna gert með stuðningi eða allavega vitneskju Bandaríkjanna.
La historia oficial var frumsýnd árið 1985 sem er markvert af því að herforingjaklíkan stjórnaði til ársins 1983. Vinna við handritið hófst áður en stjórnin féll undir áhrifum mótmælahreyfingar „mæðra hinna horfnu“. Leikstjórinn Luis Puenzo stefndi upprunalega að því að taka myndina upp í leyni. Fall herforingjaklíkunnar gerði allt auðveldara og varð líka til þess að Norma Aleandro gat snúið aftur úr útlegð til að leika aðalhlutverkið.
Yfirstétt í afneitun er sjónarhorn La historia oficial. Við getum ekki fullyrt hvað aðalpersónan hefði átt að vita en við sjáum hvernig það verður sífellt erfiðara að vita ekki. Augnablikið þar sem heimsmynd hennar byrjar að hrynja er ákaflega sterkt.
Þetta er erfið saga og eftir á að hyggja mætti segja að La historia oficial sé eiginlega of bjartsýn á framtíðina.
Maltin gefur ★★★★.
Óli gefur ★★★★⯪👍👍🖖.
