Heimildarmynd um feril kvikmyndaframleiðandans og leikstjórans Roger Corman.
Mögulega er Roger Corman áhrifamesti einstaklingur í bandarískri kvikmyndagerð á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sem leikstjóri náði hann hæstu hæðum með kvikmyndum sem gerðar voru eftir sögum Edgar Allan Poe en sem framleiðandi ódýrra kvikmynda fóstraði hann hæfileika ótal ungra kvikmyndagerðarmanna og leikara.
Í Corman’s World er talað við ótal leikara, leikstjóra, framleiðendur og handritshöfunda sem fengu sín fyrstu tækifæri hjá Corman ásamt mörgum sem voru undir áhrifum hans. Lukkulega eru konurnar ekki vanræktar hérna, mögulega af því leikstjórinn Alex Stapleton er kona.
Það er oft sagt að Corman hafi einungis einu sinni tapað peningum, það var á The Intruder (með William Shatner í titilhlutverkinu) sem hann leikstýrði sjálfur. Í henni afhjúpast pólitískar skoðanir hans og andúð hans á kynþáttamisrétti. Í kjölfarið varð hann betri í að lauma þeim að.
Ein augljósasta þversögnin við Roger Corman er að hann notaði nekt til að selja kvikmyndir sínar á sama tíma og hann gaf ótal konum tækifæri til að leikstýra, framleiða og skrifa myndir. Eiginkona hans Julie var líka öflugur framleiðandi.
Roger sagði að hann réði konur af því það væru svo margar hæfileikaríkar sem hægt væri að fá ódýrt því Hollywood kynni ekki að meta þær. Þessi útskýring er ákaflega góð leið til að fela skoðanir sínar um leið og hún beinir athyglinni að kynjamisrétti í meginstraumi kvikmyndaiðnaðarins.
Það er einmitt erfiðara að telja upp konur sem fengu tækifæri hjá Roger Corman heldur en karla. Ástæðan er sú að karlarnir fengu mun oftar tækifæri til að gera stærri hluti í Hollywood eftir að hafa unnið hjá honum.
Ein af viðmælendum myndarinnar er Polly Platt sem var gift leikstjóranum Peter Bogdanovich. Þeir sem þekkja til vita vel að hún bar líka ábyrgð á því sem vel gekk í fyrstu myndum hans. Platt segir að þegar hún skildi hafi enginn í kvikmyndaiðnaðinum haft áhuga á henni en Roger Corman hringdi í hana og bauð henni að leikstýra myndum hjá sér.
Af öðrum eftirminnilegum atriðum má nefna félagana Joe Dante og Allan Arkush sem birtast saman bæði í samtíma myndarinnar og viðtali frá áttunda áratugnum þegar þeir unnu fyrir Roger Corman. Það hefði verið gaman að sjá meira af þeim.
Viðtalið við Jack Nicholson er líka áhugavert. Hann byrjaði auðvitað feril sinn hjá Roger Corman og lék meðal annars í upprunalegu The Little Shop of Horrors ásamt Dick Miller sem líka er spjallað við.
Ég mæli alveg með Corman’s World fyrir alla sem hafa áhuga á sögu kvikmynda.
Óli gefur ★★★★☆👍👍
Nokkrir viðmælendur í Corman’s World
- Allan Arkush
- Bruce Dern
- David Carradine
- Dick Miller
- Gale Anne Hurd
- Irvin Kershner
- Jack Nicholson
- Joe Dante
- John Sayles
- Jonathan Demme
- Julie Corman
- Martin Scorsese
- Mary Woronov
- Pam Grier
- Paul W. S. Anderson
- Penelope Spheeris
- Peter Bogdanovich
- Peter Fonda
- Polly Platt
- Quentin Tarantino
- Robert De Niro
- Roger Corman
- Ron Howard
- William Shatner
