Bandarískur leikari í Japan tekur að sér röð ólíkra hlutverka í lífi venjulegs fólks.
Þó ég sé ekki viss um að þjónustan sé nákvæmlega eins og hún er sýnd í myndinni er Rental Family byggð á raunverulegu fyrirbæri. Sumsé, að leigja leikara til þess að taka að sér hlutverk í raunverulegu lífi. Þetta er ekki heldur ólíkt því að ráða „syrgjendur“ til að mæta í jarðarfarir eins og gerist víst í Kína.
Rental Family fjallar um hvaða áhrif aðalpersónan hefur á líf fólksins sem hann kemst í snertingu við. Spurningin sem við þurfum að glíma við er hvort þessi sambönd séu öll jákvæð. Er of mikið verið að leika með tilfinningar fólks. Ég tengdi sérstaklega við samband hans við unga stúlku sem minnti mig á hvernig það var að vinna í grunnskóla og mynda oft tímabundin tengsl við krakka sem síðan hurfu úr lífi mínu.
Mér hefur lengi líkað vel við Brendan Fraser (þó ég muni aldrei horfa á myndina sem hann fékk Óskarinn fyrir). Ég myndi ekki segja að mikið hafi reynt á hann sem leikara í stærstu myndunum sem hann lék í á fyrrihluta ferils síns en hann var gestaleikari í nokkrum þáttum af Scrubs þar sem hann var einstaklega góður.
Í einu af fyrsta atriði Rental Family þarf Brendan Fraser að leika með andlitinu. Við þurfum að sjá hann reyna að átta sig á aðstæðum. Það er meira fyndið en dramatískt en hann gerir þetta svo vel að ég gat ekki annað en dáðst að leikhæfileikum hans.
Það er til fólk sem telur Rental Family full væmna en mér finnst hún ljúf og er á því að þetta sé ein besta mynd síðasta árs.
Þessi árstími er góður bíótími því við erum að fá hingað myndir sem teljast eiga möguleika á verðlaunum, Rental Family er án efa ein þeirra.
Óli gefur ★★★★★👍👍.
