Sálfræðingur reynir að stoppa lögreglumann sem er ekki í nægilega góðu andlegu jafnvægi til að vinna starf sitt af ábyrgð.
Richard Donner leikstýrir handriti eftir Shane Black með Mel Gibson og Danny Glover í aðalhlutverkum. Síðan er fjöldi kunnuglegra andlita í kring, þar af Gary Busey eftirminnilegastur sem sadískur ofbeldishrotti.
Mig grunaði að Lethal Weapon væri ekki jafn góð og mig minnti en varð samt fyrir töluverðum vonbrigðum. Hún er hæg. Framvindan er fullkomlega órökrétt og persónurnar eru þunnar. Ef hasaratriðin væru betri gæti ég fyrirgefið margt af þessu.
Það sem mér þótti hve undarlegast í þetta skipti, og ég er að reyna að orða þetta höskuldalaust, er hvernig dóttir Murtaugh hverfur bara á ákveðnum tímapunkti. Það er eins og hún hafi einfaldlega gleymst eða verið hunsuð til þess að keyra hasarinn áfram.
Mér líkar við margt af því sem Shane Black hefur gert í gegnum tíðina. Það er langt síðan ég hef séð Last Boy Scout en ég man að mér þótti hún betri en Lethal Weapon. Hrifnastur er ég þó af Nice Guys og Kiss Kiss Bang Bang sem hann leikstýrði sjálfur.
Maltin gefur ★★★☆.
Óli gefur ★★⯪☆☆🫴.
