Galaxy Quest (1999) ★★★★★👍👍🖖

Leikarar úr vinsælum geimþætti frá níunda áratugnum eru misskildir af alvöru geimverum.

Árið 1999 var gott kvikmyndaár, í raun eitt af þeim allra bestu. Ég tók varla eftir Galaxy Quest í bíó en sá hana fljótlega eftir að hún á spólu. Mér þótti hún fyndin en held ég hafi ekki horft á hana oft.

Þegar við sáum að Galaxy Quest yrði sýnd í bíó stökk ég ekki strax til, meðal annars af því ég var ekki viss um að sonurinn myndi fíla hana. Myndin gengur auðvitað út á að gera grín að Star Trek og hann hefur ekki séð einn einasta þátt svo ég viti. Við fórum og við hlógum báðir í gegnum alla myndina.

Það eru leikarar í myndinni. Sigourney Weaver, Allan Rickman, Tony Shaloub og Sam Rockwell. Af aðalleikurunum er áhugaverðast að sjá Tim Allen því hann hefur aldrei verið jafn góður og hér. Það eru til sögur af árekstrum á milli hans og Rickman sem eiga að hafa orðið til þess að hann reyndi að standa sig.

Stjarna myndarinnar er Enrico Colantoni (pabbinn í Veronica Mars). Hann bar meira og minna ábyrgð á að ákvarða hegðun og talsmáta geimveranna. Galaxy Quest væri ekki nærri jafn góð ef þær virkuðu ekki svona elskulegar. Hin stóru geimveruhlutverkin eru Rainn Wilson, Patrick Breen, Jed Rees og auðvitað sérstaklega Missi Pyle.

Stóri skúrkur myndarinnar, fyrir utan Tim Allen, er Sarris sem er foringja hinna geimveranna. Nafnið kemur frá kvikmyndagagnrýnandanum Andrew Sarris sem hafði víst gefið fyrri mynd framleiðandans Mark Johnson mjög neikvæðan dóm.¹

Það er frægt að David Mamet (leikstjóri, leiksskáld og handritshöfundur) kallaði Galaxy Quest eina af fjórum fullkomnum kvikmyndum sem gerðar hafa verið.² Auðvitað er handritið mikilvægast í hans huga og það er þétt. Sjálfur er ég sérstaklega hrifinn af því hvernig algjör aukaatriði í byrjun myndarinnar verða stórvægileg í lok hennar. Ég elska þegar slíku er laumað framhjá áhorfandanum.

Maltin gefur ★★★☆.

Óli gefur ★★★★★👍👍🖖.

¹ Andrew Sarris var mikilvægur í að afla hinni svokölluðu auteur-kenningu vinsælda í Bandaríkjunum. Árið 1997 var haldið málþing honum til heiðurs í ríkisháskólanum í Pennsylvaníu þar sem verk leikstjórans Allen Smithee voru greind með hliðsjón af auteur-kenningunni … sem er auðvitað brandari því Smithee var dulnefni sem margir leikstjórar notuðu þegar þeir eru ósáttir við lokaútgáfu kvikmynda sinna og höfðu ekki vald til að breyta þeim.

² Úr bókinni Bambi vs. Godzilla: On The Nature, Purpose, and Practice of the Movie Business:

The Godfather, A Place in the Sun, Dodsworth, Galaxy Quest—these are perfect films. They start with a simple premise and proceed logically, and inevitably, toward a conclusion both surprising and inevitable. […] A washed-up bunch of television actors curse the long-gone success of their show; it has mired them in supermarket openings, portraying cutout heroes; they are given the chance to inhabit that fantasy-turned-real and discover, in themselves, real heroism.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *