Vanhæfur lögreglumaður álpast til þess að leysa málið.
Kentucky Fried Move, Airplane, Top Secret!, Ruthless People og svo kom Naked Gun, fimmta myndin frá ZAZ-genginu, Zucker-Abrahams-Zucker. Fullur titill myndarinnar vísar í sjónvarpsþættina Police Squad frá árinu 1982. Það voru framleiddir heilir sex þættir en það þurfti bara fjóra til að sannfæra sjónvarpsstöðina um að enginn nennti að horfa.¹ En svo sló Police Squad í gegn á vídeóspólum sem leiddi til þess að ákveðið var að gera kvikmynd.
Leslie Nielsen er eini leikarinn sem lék bæði í þáttunum og myndunum. Aðrir leikarar í myndinni eru Priscilla Presley, Ricardo Montalbán, George Kennedy og O.J. Simpson … Lukkulega er barið á Simpson í hvert skipti sem hann birtist og fær enga samúð. John Houseman birtist sem ökukennari og ofbeldismaðurinn Lawrence Tierney er þjálfari hafnaboltaliðs.
Sumir brandarar eldast betur en aðrir. Sumir voru ekki endilega fyndnir til að byrja með. Aðferðarfræðin er að dæla út eins mörgum bröndurum og mögulegt er þannig að áhorfendur hlógu mjög reglulega.
Upphafsatriði Naked Gun er mjög síns tíma og því miður er það tími Reagan. Frank Drebin kemur inn í herbergi þar sem helstu „óvinir“ Bandaríkjanna eru saman komnir til að plotta og lemur alla. Saddam Hussein er ekki á svæðinu enda var hann ennþá vinur árið 1988.
Maltin gefur ★★★☆.
Óli gefur ★★★⯪☆👍.
¹ Joe Dante leikstýrði tveimur þáttum af Police Squad. Honum hafði áður verið boðið að leikstýra Airplane en afþakkaði.
