Vísindamaður gengur í gegnum margvíslegar breytingar eftir að hafa kynnst konu.
Það eru til örfá góð slagorð fyrir kvikmyndir. Aliens er augljósa dæmið. The Fly er líka í þessum hópi.
Be afraid,
Be very afraid
David Cronenberg leikstýrði The Fly. Geena Davis og Jeff Goldblum leika aðalhlutverkin. Mel Brooks framleiddi. Chris Walas, nýbúinn að skapa skrýmsli og sæta gaura fyrir Gremlins, sá um fluguumbreytinguna.
Ég hef ekki séð upphaflegu útgáfuna af The Fly (og ekki heldur lesið söguna) en mér skilst að hún sé töluvert öðruvísi. Það er ekki skrýtið að eftir að handritið fór að þróast yfir í meiri líkamshrylling var David Cronenberg fenginn í verkefnið.
Jeff Goldblum er dr. Brundle sem hefur fundið upp tæki til fjarflutninga. Þetta er ekki þráðlaust þannig að við erum ekki að tala um Star Trek en samt á því bili. Þegar vísindablaðamaðurinn Geena Davis mætir á svæðið er uppfinningamaðurinn að leita leið til að flytja lífverur á milli staða.
Ef The Fly hefði ekki verið svona góð hefði ég haft tíma til að spyrja spurninga eins og „hvað með erfðaefni allra vírusanna og sýklanna?“ Kannski er það allt í upprunalega menginu því ekki viljum við raska sýklaflóru þarmanna.
Skrýtnasta atriði myndarinnar er líklega eftir að fyrsta tilraun til að flytja lífveru fer … illa. Það leiðir nefnilega til kynlífs. Mig grunar að flestir væru ekki beinlínis í stuði eftir að hafa séð svoleiðis.
Brellur og förðun Chris Walas eldast alveg rosalega vel. Það er alveg hægt að sjá hvernig hann byggir á því sem hann var að gera í Gremlins. Ég veit að ég er ófrumlegur að segja svona en vel hannað skrýmsli fyrir framan myndavélina er alltaf betra en vel teiknað tölvuskrýmsli.
Jeff Goldblum er upp á sitt besta í The Fly enda virðist persóna hans í fjölmiðlum í seinni tíð blanda af dr. Brundle og óreiðustærðfræðingnum í Jurassic Park. Hann veit hvað virkar. Geena Davis er frábær. Mér finnst hún eiginlega alltaf frábær þannig að það eru engar fréttir.
Það að hafa séð Scanners svona nýlega sýnir vel og vandlega hvílík framför The Fly er. Líklega skiptir höfuðmáli að hérna er hann með ákaflega góða leikara.
Maltin gefur ★★⯪☆ enda ekki maður ógeðsins.
Óli gefur ★★★★★👍👍🖖 sem gerir hann vonandi ekki að manni ógeðsins.
