Are you from Iceland?

Herald house hótelið í Edinborg klukkan 21:35 þann 18. apríl 2006
Eftir að hafa sofnað í smá tíma skruppum við út.  Markmiðið var að sjá hvort Haymarket stöðin væri ekki örugglega rétta leiðin útúr borginni.  Stöðin er í um 10 mínútna göngufæri héðan þannig að við förum þaðan og hefðum átt að fara þar út þegar við komum í borgina í dag.  En hvað um það.  Við fórum síðan á pínulítinn skyndibitastað á Morrisson sem heitir Grande Fry.  Þar ætlaði ég að kaupa mér Lasagne en var sagt að það var ekki selt þarna.  Eygló hélt að ég væri með heilaspuna því hún sá ekkert um Lasagne á skiltunum þarna en það var ekki rétt hjá henni.  Ástæðan fyrir að hún sá þetta ekki var að kæliskápurinn skyggði á útsýni litla fólksins á skiltið.  Væntanlega hefur það orðið til þess að rétturinn var tekinn úr umferð.

Ég fékk mér bara pizzu en Eygló einhvern pastarétt.  Þegar ég var að borga þá spurði afgreiðslustúlkan „are you from Iceland?“.  Mér brá en hún benti mér á að ég hafði opnað veskið þannig að sást í „Ísland“ efst á ökuskírteininu.  Glögg.  Maturinn var fínn en pastað hennar Eyglóar dáltið ofsoðið.

Ég veit annars ekki hvort ég var búinn að minnast á kókið hérna.  Það er nefnilega gott.  Og það sem meira er, kók í hálfslítra flöskum er líka gott ólíkt því íslenska.  Ég er mjög feginn.  Pepsíið er sem fyrr segir algjör viðbjóður.