Mörgæsir í skrúðgöngu

Herald House hótelið í Edinborg 20:23 sumardaginn fyrsta 2006
Ég gleymdi að minnast á sjokkuð sem við fengum í gær rétt áður en við komum á hótelið.  Við vorum að fara yfir Lothian Road sem er síðasta stóra gatan á leiðinni að hótelinu.  Það var grænn kall og við komin hálfa leið yfir þegar við sáum og heyrðum sjúkrabíl koma.  Við lentum í mikilli kreppu þarna varðandi hvort við ættum að hlaupa yfir, til baka eða vera kyrr.  Það sem gerði ákvörðunina erfiða var að við áttuðum ekki á því strax hvorum megin sjúkrabíllinn myndi koma og síðan þurftum við að samhæfa okkur.  Þetta gerðist augljóslega örsnöggt og ákvörðunin var tekin þannig að ég dró Eygló bara með mér yfir.  Púff.

Í morgun vöknuðum við eins seint og morgunmatarafgreiðslutíminn leyfði.  Við vorum komin út klukkan svona kortér í tíu og röltum af stað að dýragarðinum.  Við vorum ekki viss um hve langt var en það var langt.  Held að röltið hafi tekið 45 mínútur.  Takið strætó ef þið farið þarna.  Það voru nokkur áhugaverð dýr í garðinum en of mikið af tómum búrum, sérstaklega miðað við að þetta kostaði tíu pund.  Litli flóðhesturinn, aparnir (sérstaklega Simpansarnir), kameldýrin og mörgæsirnar stóðu uppúr.  Við fengum okkur mat þarna.  Það má eiginlega gera ráð fyrir því að staðir sem eru í einokunaraðstöðu séu bara með slakan (og of dýran) mat.  Það var líka rosalegur hávaði þarna.

Eygló sat við skriftir í heillangan tíma eftir að matnum lauk og síðan fórum við að horfa á sex mörgæsir í skrúðgöngu.  Á leiðinni út fengum við ráðleggingar frá afgreiðslumanni um hvaða strætó skyldi taka til að komast að þjóðminjasafninu.  Þau ráð virkuðu vel og við hoppuðum í tveggja hæða Lothian strætó.  Við sátum að sjálfssögðu uppi, alveg fremst, og höfðum því gott útsýni á trjágreinarnar sem skullu á rúðunni fyrir framan okkur.

Þegar kom að þjóðminjasafninu var klukkan farin að ganga fjögur og við höfðum ekki nærri nægan tíma þar, sérstaklega þar sem þetta eru í raun tvö söfn.  Almenna þjóðminjasafnið og síðan Konunglega þjóðminjasafnið.  Mér sýndist í fljótu bragði að safnið væri illa skipulagt.  Annars þá kostaði ekkert inn þarna.  Ætli þetta sem almennt trend í safnaheiminum?  Verið að hverfa frá gjaldheimtu?  Stóla frekar á minjagripa- og veitingasölu?
Þegar okkur hafði verið hent út, „safngestir athugið, klukkuna vantar fimmtán mínútur í fimm og við erum að fara loka safninu“, fórum við yfir South Gate til að skoða búðir.  Þar fórum við í Flip búð sem var stærri en sú sem við höfðum séð í Glasgow.  Þarna voru í raun þrjár verslanir, ein sem var aðallega með boli og önnur föt, síðan ein með boli og drasl og síðast ein með hassvörur (aðeins fyrir fullorðna).  Eygló keypti sér föt þarna.  Meðan hún var að máta þá beið ég fyrir framan og fékk óvænta sýningu frá stúlkunni í næsta klefa við Eygló.

Næst fórum við í Forbidden Planet en sú búð var ekki jafn góð og búðin í Glasgow, til dæmis minna af spilum.  Þá var komið að bókasöfnunum.  Við fórum fyrst á almenningsbókasafnið.  Það var ágætt.  Síðan var farið yfir götuna í Landsbókasafn Skota en okkur var ekki hleypt inn þar nema ef við lofuðum að við ætluðum að nota safnið.  Við ákváðum að vera ekkert að eltast við þetta.  Við fengum okkur kvöldmat á stað sem heitir Tuschany á George IV bridge.  Þjónninn var lítill og maturinn góður.

Röltum heim og kíktum í nokkrar búðir.  Fyrst í tvær fornbókabúðir sem voru í raun sama búðin.  Ég spurði frekar glórulaust starfsfólkið um Myth and religion of Ancient Scandinavia en ekkert fannst.  Síðan kíktum við snöggt í kynlífsbúð sem var mjög léleg.  Eygló hefur hins vegar ekki enn gefið eftir á að skoða hinn sögufræga stað Burke & Hare sem við höfum þrisvar gengið framhjá.  Keyptum matvörur fyrir kvöldið í Scotmid og fórum síðan aftur á hótelið.  Held að þau séu hætt að spila Emilíönu í bili.