Loch Ness, kastalar og fleira

Herald house hótelið í Edinborg, klukkan 22:37, laugardagskvöldið 22. apríl 2006, síðasta kvöldið
Við Eygló eigum sjö ára afmæli í dag.  Það er slatti.

Í dag fórum við í fyrsta skiptið í einhverja skipulagða túristaferð.  Við mættum út á götuhorn fyrir átta í morgun þar sem við vorum sótt af Gray Line rútu.  Við völdum þessa ferð af því að þeir sækja mann.  Bílstjórinn var líka leiðsögumaður.  Hann var mjög fínn.  Við lærðum heilmikið um Skotland í dag.  Reyndar þá hélt leiðsögumaðurinn því fram að eftir Jakobítauppreisnina 1745-46 þá hefðu sekkjapípur verið bannaðar.  Það er rangt samkvæmt Gary West og ég held ég trúi honum frekar.  Við sáum einn arfaslakan sekkjapípuspilara upp á Hálendinu.  Sumir sjá reyndar ekki muninn á góðum og slæmum.

Við fórum í siglingu um Loch Ness.  Leiðsögumaðurinn þar virtist hálfklikkaður.  Okkur var sagt að hann væri sjávarlíffræðingur sem ég er ekki alveg sannfærður um.  Það var sónar í bátnum og á einum tímapunkti sagðist hann að við sæum eina skepnuna þar.  Hann hélt líka því fram að fyrir nokkrum árum þá hefði fundist hræ skepnu sem virtist skyld risaeðlu (samkvæmt DNA rannsóknum) þarna niðri.  Skepnan átti að hafa dáið eitthvað um árið 500.  Hræið hvarf og kallinn hélt því fram að hinar skepnurnar hefðu falið það til þess að það kæmist ekki upp um þær.  Hann ræddi þessa mál af miklum áhuga og fólk var svona að spjalla við hann en þegar við komum af bátnum þá virtist enginn sannfærður um tilvist Loch Ness skrýmslisins.  Heyrði einn kall segja „he fed me some bullshit about the sonar“.  Hálf sorglegt fyrir kallinn í raun en jákvætt fyrir mannkynið í heild sinni að fólk falli ekki fyrir þessu.

Þegar Gary var að kenna í Menningararfinum þá talaði hann um að áður fyrr þá hefðu verið til sögur um skrýmsli í flestum vötnum þarna.  Loch Ness varð bara frægast út af einhverjum myndum sem voru teknar þar.  Ég tók reyndar margar myndir af Nessie.  En síðan fórum við til Innverness, stoppuðum þar ekki heldur í Pitlochry sem er einmitt heimabær títtnefnds Gary.  Þar lét ég undan freistingu í túristabúð.

Ég sleppi reyndar heilmörgu hérna.  Við sáum „herí kú“ eða margar loðnar kýr.  Leiðsögumaðurinn sagði okkur að þjóðsöngur Íslands hefði verið saminn í Edinborg.  Hann sagði líka öllum frá því að Íslendingar kæmu í hópum í nóvember með tómar ferðatöskur til að versla.  Fannst það fyndið.  Við sáum síðan marga kastala og Ben Nevis (sem er hæsta fjall landsins, ekki frægur leikari).

Við erum núna að ganga frá.  Þurfum að vakna sjö í fyrramálið, drösla okkur út á Haymarket, þaðan með lest til Glasgow og síðan á flugvöllinn með strætó.