Leiðin til helvítis

Reykjavík, klukkan 13:58 þann 23. apríl 2006 Við erum komin heim.  Þetta gekk vel í morgun.  Við fórum út hálfátta og komumst inn á Haymarketstöðina sem var ekki enn búin að opna.  Þegar hún opnaði þá kom í ljós að miðasalan var lokuð og við þurftum að nota sjálfsalann þarna.  Fyrsti sjálfssalinn vildi ekki kortið hennar Eyglóar en þetta virtist allt ganga í þeim seinni.  Þegar við vorum komin í lestina þá kom reyndar í ljós að í stað þess að kaupa miða fyrir tvo til Glasgow þá höfðum við keypt miða fram og til baka.  Okkur var sleppt þarna en Eygló lenti í vandræðum þegar hún ætlaði út af stöðinni í Glasgow.  Við fundum strætóskýlið fljótt og örugglega.  Þar heyrðum við íslensku aftur.

Þegar komið var á flugvöllinn þá leituðum uppi Flugleiðabásinn, röðin þar var hundlöng og tók um 40 mínútur fyrir okkar að komast í gegn.  Dr. Gunni var þarna, ferskur frá Aberdeen (sem er eini stóri af þessum aðal skosku bæjum sem ég sá ekki)  Við fengum okkur smá snarl á flugvellinum, mjög fínn matur sem er óvenjulegt.  Við keyptum annars ekkert í Dútífrí þarna.

Við fengum að vera tvö ein með þrjú sæti og mér til mikillar gleði var þáttur með Derren Brown sýndur þarna.  Ég var að sjálfssögðu dauðhræddur á leiðinni upp og niður.  Ég var reyndar ekki einn um það, það var stress fyrir framan mig líka.  Þegar við vorum að lenda þá var ég að hlusta á eina flugvélatónlistarrásina, þegar við hófum aðflugið þá byrjaði lag að hljóma í eyrunum á mér.  Ég trúði því ekki fyrst en jú þetta var Road to Hell.  Þegar vélin hristist sem mest þá heyrðist:

This ain’t no technological breakdown,
oh no, this is the road to hell

Eygló keypti gríðarlegt magn af áfengi í fríhöfninni og ég keypti líka eitthvað drasl.  Við komumst síðan klakklaust út.  Á leiðinni heim var haglél.  Við erum komin heim.