Að banna reykingar á skemmtistöðum

Nú á vonandi að banna reykingar á skemmtistöðum. Já, ég er mjög hlynntur því og þori að opna þessa umræðu þó að einhverjir reyni að koma einhverjum fasistastimpli á mig.

Nokkrir punktar:

  • Fyrsta ástæðan sem ég vill nefna er sú sem er mikilvægust fyrir mér, það er að það er ómögulegt að fara út að skemmta sér á Íslandi án þess að enda lyktandi einsog öskubakki, aumur í augunum, sár í hálsinum og með dynjandi höfuðverk. Bæði ég og Eygló vorum að farast vegna reykinga þeirra sem voru í kringum okkur á laugardagskvöldið.

  • Ég vorkenni alltaf þeim sem vinna á skemmtistöðum, börum og veitingahúsum. Þetta fólk er neytt til að vinna við þessar ömurlegu aðstæður, þurfa raunverulega að leggja heilsuna að veði til að vinna sér inn pening (oft eru þetta námsmenn að reyna að fá smá aukapening). Ég vann sjálfur á bar og hætti aðallega vegna reykinga, reyndar reykinga starfsmanna.

  • Tónlistarmenn falla í sama flokk og starfsfólkið, þeir þurfa að leggja heilsuna að veði. Dæmi um mann sem tapaði þessu veðmáli (þó að hluta ferils hans hafi hættan ekki verið ljós) er Ingimar Eydal, hvers vegna dó maður sem aldrei reykti sígarettu úr lugnakrabbameini? Svarið er einfalt og augljóst, hann eyddi starfsferli sínum á reykfylltum skemmtistöðum.

  • Einhverjir spyrja:“Hvers vegna að ráðast að atvinnufrelsi eigenda skemmtistaða með því að neyða þá að taka upp þessar reglur?“ Þessi spurning er út í hött vegna þess að samfélagið þarf að gera ákveðnar kröfur til veitingahúsa og skemmtistaða vegna heilbrigðismála og þær kröfur þróast með tímanum. Skemmtistaðaeigendur hafa líka brugðist því að koma með raunverulegan valkost við reykfylltu staðina.

  • Síðan er spurningin um árás á frelsi einstaklingsins. Að einhverju leyti má samþykkja það að það sé réttur manna að eitra fyrir sjálfum sér en það getur aldrei talist réttur manna að eitra fyrir öðrum, svo einfalt er það. Frelsi einstaklingsins hlítur mun frekar að snúast um réttinn til að anda að sér hreinu lofti.

  • Það getur verið stórhættulegt að hafa fullt fólk með sígarettur, sérstaklega ef því finnst nauðsynlegt að dansa um leið.

  • Lokaástæðan er að með þessu fækkum við tækifærum reykingamanna til að drepa sig og það skiptir mig máli því mér þykir vænt um þá marga.