Hvað er vefrit?

Ég var í dag að gera heiðarlega tilraun til að skilgreina vefrit fyrir íslensku Wikipediu.  Ég fékk breytingar á færsluna sem ég var ekki sáttur við.  Tilraun mín til að skilgreina vefrit er eitthvað á þessa leið.

Vefrit birtir reglulega greinar (ólíkt bloggum sem eru yfirleitt óregluleg, bara þegar bloggarinn er í stuði), vefrit hafa marga höfunda (þó er til fyrirbrigðið hópblogg en flest blogg eru með skoðunum einstaklings), vefrit hafa ritstjórn, vefrit hafa að jafnaði lengri greinar en blogg (Björn Bjarna er þarna frekar sérstakur) og vefrit er yfirleitt ekki á persónulegu nótunum á meðan blogg eru það oft.  Ég held að þessi atriði myndi aðgreina blogg og vefrit nokkuð vel.

En hvað greinir vefrit frá fréttamiðlum (dagblöðum) á netinu?  Ég myndi segja að fjöldi uppfærslna skipti þar höfuðmáli.  Vefrit geta verið uppfærð nokkrum sinnum á dag en fréttamiðlarnir eru uppfærð nær hvern einasta klukkutíma dagsins.  Vefrit eru líka ekki með fréttaöflun í gangi.  Þau nærast frekar á því að vinna úr greinum frá fréttamiðlunum.

Hver er munurinn á vefriti og tímariti sem hægt er að nálgast rafrænt?  Ég myndi segja að vefrit séu þannig að þau séu fyrst og fremst á netinu en tímaritin eru með aðaláherslu, allavega upphaflega, á pappírsútgáfu.  Tímarit eru líka “uppfærð” mánaðarlega, ársfjórðungslega eða eitthvað slíkt á meðan vefrit eru frekar með uppfærslur á bilinu einu sinni í viku til oft á dag.  Tímarit sem er hægt að á netinu eru líka oftast á pdf formi (sem ég sjálfur tel ekki beinlínis netformat) en vefrit eru það aldrei.

4 thoughts on “Hvað er vefrit?”

  1. Ég myndi segja að þetta atriði væri ofarlega á listanum til þess að hægt sé að flokka vef sem vefrit. Ég ætla ekki að segja að það sé algerlega nauðsynlegt en mér sýnist að flest vefrit sem standa undir nafni reyni að hafa reglulegar uppfærslur. Það að hafa einhvern í vinnu kemur málinu ekkert við.

  2. Á ég sem sagt að hætta að kalla eitthvað vefrit bara ef það fer að uppfæra óreglulega? Sorrí, það er ekki að virka.

  3. Ásgeir, lestu það sem ég sagði. Ég tók sérstaklega fram að það væri ekki algerlega nauðsy nlegt.

Lokað er á athugasemdir.