Hér er langa ferðasagan. Hún er mjög skemmtileg. Hátt í níu þúsund orð.
Lukka vakin
5. ágúst 2006, klukkan 02:08 að sænskum tíma, Gustaf av Klint Ég ligg hér í herbergi með Eygló, Jóni Kr. og Eggerti. Eggert og Jón Kr. eru vonandi sofandi eða að sofna en Eygló er nýbúinn að redda mér nauðsynlegum vörum fyrir svefninn.
Dagurinn byrjaði klukkan þrjú í nótt hjá mér. Ég vaknaði, setti fleiri mp3 lög á tölvuna og síðan drösluðum við Eygló okkur út. Rétt eftir klukkan fjögur kom Eggert með mömmu sinni að sækja okkur. Hún skutlaði okkur á BSÍ þar sem við hittum Jón Kr., Lukku og Sigrúnu Ísleifs. Við töluðum um að koma af stað fjöldasöng og Eygló spurði þá hvort það myndi vekja lukku. Rútuferðin var ekki eftirminnileg.
Á vellinum bættust fleiri ferðafélagar í hópinn. Í innritun lentu skátar á milli þjóðfræðinema í röðinni en það kom ekki að sök, flest náðum við sætum saman. Veifuðum Hlyn sem var að koma í vinnuna, hann slæst seinna í hópinn. Við fórum í morgunverðinn í fríhöfninni. Ég skóflaði hlutum á diskinn minn og sumt af því endaði víðs vegar um bakkann minn. Við Eygló keyptum okkur sólgleraugu og gjaldeyri í fríhöfninni.
Eggert var svo góður að gefa Eygló eftir sæti sitt í flugvélinni svo Eygló gætum setið saman. Flugferðin var merkilega góð. Það var svoltið gaman að hlusta á Landslag skýjanna með Nýdönsk – horfandi á landslag skýjanna.
Á Arlanda var farangur fólks í reiðuleysi útum allt sem við hefðum getað tekið sem vondu tákni þar sem taskan hennar Jóhönnu komst ekki til skila. Ömurlegur bömmer. Við enduðum með taxa frá Arlanda til Stokkhólms eftir að hafa fengið leiðbeiningar frá bara einhverjum Íslendingi sem vildi ráða okkur heilt. Það þurfi smá prútt við leigubílstjórana en þetta reddaðist. Tólf manns í tveimur bílum enduðu á Gustaf av Klint. Hostelið er dömp en spes. Þetta er bátur. Við erum fjögur í agnarlitlu herbergi. Tvær kojur og eitt kýrauga sem þarf að vera opið.
Veðrið í Stokkhólmi var æðislegt. Ég er sem betur þannig að ég á ekki bara svört föt þó ég noti þau aðallega. Var mjög ljósklæddur í sólinni. Jón Kr. var hins vegar bara svartklæddur. Þegar allir höfðu komið sér fyrir þá fórum við af stað og ráfuðum um Gamla Stann. Okkur vantaði mat, Lukku gjaldeyri og Jóhönnu föt. Við borðuðum á einhverjum stað sem er við torg sem ég man ekki hvað heitir. Nokkuð fallegt í kring reyndar. Ég fékk mér ömurlegt Lasagna, Eggert líka, mikið skilið eftir.
Við ætluðum að drífa okkur í skoðunartúr með bát en þá var ákveðið að redda fötum á Jóhönnu fyrst. Af einhverjum ástæðum vildu fæstir karlmennirnir fara með í verslunarleiðangur. Jón Kr. fór þó til að redda sér ljósum fötum. Við mæltum okkur mót við bátinn klukkan 18:15. Ég, Eggert, Jónbjörn og Addi ráfuðum um. Við komum við í vopna og búningasafni konungshallarinnar. Ég dró þá með mér í spilaverslun en ekki mjög lengi. Ég fékk mér síðan einhvers konar ískaffisjeik að drekka sem var merkilega góður. Við fundum líka skemmtilegar þjóðfræðitengdar búðir sem við ætlum að fara aftur í með fleiri þjóðfræðinemum.
Við röltum síðan af stað aftur að bátnum og vorum komnir á góðum tíma. Jónbjörn fékk sér nudd og það náði góð mynd af nuddaranum káfandi á rassi hans. Við komum að bátnum klukkan 18:14 og þar voru engar stelpur. Þær voru rétt komnar klukkan 18:30 þegar báturinn var að leggja af stað en þá voru ekki nægilega margir miðar eftir. Þá var ákveðið að fara í ferð klukkan 20:00 og borða í millitíðinni.
Ég mundi eftir Pizza Hut og Kebab stað og ætlaði með alla hersinguna þangað en sá síðan að við gætum orðið svoltið sein fyrir ef mig misminnti eitthvað um fjarlægðir. Við enduðum því inn á einhverjum kínverskum stað. Mér fannst þetta reyndar ekki spennandi en ákvað að reyna að borða þarna til þess að ljúka því af. Ég sá hins vegar að Jón Kr. var ekki að fíla þetta þannig að ég bauð honum að við færum saman á MacDonalds. Hann þáði það og reyndar fór síðan helmingur hópsins með þangað. Ég borðaði þarna væntanlega í annað sinn á MacDonalds á ævinni. Franskarnar voru góðar og borgarinn virtist vera úr kjöti.
Við náðum að mætast við bátinn á réttum tíma. Þegar við stóðum þarna leit ég niður og sá afrifu af flugmiða á jörðinni. Hann líktist íslenskum miða og ég sá að farþeginn hét „dottir“ þannig að ég ákvað að rýna betur í hann. Sigrún Sigmars stóð fyrir aftan mig og spurði í gríni hver ætti miðann sem var greinilega búinn að liggja þarna í einhvern tíma. Ég svaraði „þú“ og það var staðreyndin.
Bátsferðin var ágæt, þetta var reyndar lengri ferð en við ætluðum upphaflega í þannig að við vorum orðin hálf þreytt þegar við komum að leiðarenda. Það hressti okkur reyndar við að rölta um í ferska loftinu. Klukkan um tíu að kvöldi og við ennþá í stuttbuxum. Veðrið var ennþá nógu gott þó dimmt væri orðið.
Í bátnum var síðan ákveðið plan næstu daga. Það endaði síðan á að fólk fékk sér að drekka og við fórum ekki að sofa fyrren að ganga tvö. Skemmtilegt fólk sem ég er að ferðast með.
Það var erfitt að fara að sofa þar sem Eggert hafði farið að sofa nokkuð fyrr. Leiðinlegt að trufla hann. Vona að hamrið á tölvuna sé ekki að angra hann of mikið. Núna ætla ég að kíkja snöggt á myndirnar sem ég tók í dag.
p.s. sumir hrjóta.
Með nördum í Stokkhólmi
Klukkan 17:43 að sænskum tíma í lest númer 50, brautarstöðin í Stokkhólmi Við förum að leggja af stað rétt bráðum. Við vöknuðum ekki eldsnemma í morgun. Eggert vaknaði fyrstur og var búinn í sturtu klukkan átta. Við Eygló vöknuðum og drösluðum okkur í sturtu rétt fyrir níu. Þá voru við fjögur á fótum en Jónbjörn bættist fljótlega í hópinn. Morgunmaturinn var skandinavískur, brauð með áleggjum. Það var fínt. Reyndar var smjörið í svo fagur appelsínugulum pakka að Rósa og Eggert héldu að það væri hunang og fengu sér því ekki. Ég gerði tilraun til að vekja Lukku, Sigrúnu Ísleifs, Helgu og Jóhönnu með takmörkuðum árangri. Eitthvað voru þær slappar eftir gærkvöldið.
Við ákváðum því að splitta hópnum. Við Eygló fengum Eggert og Jón Kr. með okkur í lið og röltum um. Í þetta skiptið fórum við í allar búðirnar sem Addi og Jónbjörn kvörtuðu yfir í gær. Ég pósaði fyrir myndavélina með gaddakylfu og keypti mér slíka í míníformi í þjóðfræðilegri verslun. Í nördabúðinni leiðbeindi ég Jóni Kr. um Diskveröldina og sagði að Mort væri gott inngangsrit fyrir son hans. Eygló fann ferðaútgáfu af Catan en ég keypti Anansi Boys eftir Neil Gaiman og nýjustu Science of Discworld bókina. Held að Eggert hafi ekkert keypt.
Við röltum áfram. Við fengum okkur ís (Eggert reyndi að panta ís með tveimur kúlum og fékk tvær kók) og tókum síðan eftir töframanni sem var að sýna listir sínar (það er einmitt einhver töframannahátíð í borginni). Á meðan töframaðurinn var að breyta reipisspottum þá var brjáluð Jesúkelling að vara okkur við Satan. Reglulega hæddist töframaðurinn að kellingunni með því að segja halelúja þegar vel gekk hjá honum. Það var líka stór hópur að horfa á sjónhverfingar hans en fáir nenntu að líta við Jesú. Aðstoðarstúlka töframannsins fór síðan í pappakassa sem hann stakk fullt af sverðum í. Það var skemmtilegt að sjá þetta læf. Þegar hann var búinn með sýninguna gaf ég honum tíu sænskar krónur einsog hann hafði beðið áhorfendur um (fyrir leigubíl heim). Ég grínaðist líka við að hann væri „bigger than Jesus“. Töframaðurinn sagði þá að Jesú hefði verið betri sjónhverfingarmaður en hann.
Við röltum þá áfram í átt að Högtorget. Komum víða við á leiðinni. Ég fann Freddiedúkku og pósaði með hana á mynd. Ég keypti hana ekki enda kostaði hún 700 sænskar. Okur. Við borðuðum Kebab í hádegismat og skoðuðum síðan Högtorget eldsnöggt því við ætluðum að hitta fólk klukkan tvö. En þegar við vorum að flýta okkur í átt að stefnumótsstaðnum þá sá Jón Kr. stuttbuxur sem hann þurfti sárlega á að halda. Við stukkum þá inn í Dressmann og þar keypti hann sér ljós föt annan daginn í röð. Í stefnumótsstaðnum sáum við Rósa og Jónbjörn um borð í skoðunarferðarrútu en engan annan. Kom í ljós að það höfðu ekki allir fengið skilaboðin um stefnumótið. En Lukka, Sigrún Ísleifs, Jóhanna og Helga Jóna voru ekki langt undan. Við töltum til þeirra og skiptum aftur liði, Jón og Eggert fóru með þeim en við fórum á Miðaldasafnið. Mér fannst það ekkert spes.
Á röltinu heim fórum við í ýmsar búðir, þar á meðal eina sem heitir Sound Pollution. Þar fann ég ekki Freak Kitchen diska en hins vegar sá ég endurútgáfuna af Eric the Red þar. Stóra fyrirtækið er að sjá ágætlega um þá.
Við komum aftur í bátinn og hittum Sigrúnu Sigmars, Rósu, Jónbjörn og Adda. Við spjölluðum stuttlega áður en þau stungu af. Eftir þetta skrapp ég á salernið til að snyrta mig. Skyndilega slokkuðu ljósin og náunginn í næsta bás fór að spjalla við mig. Hann spurði mig hvaðan ég væri og hvað ég væri að gera. Ég útskýrði það vandlega fyrir honum. Hann kvaddi mig með þeim orðuð að við, þjóðfræðinemar semsé, ættum ekki að gleyma að fólk hefði elskast (líkamlega) á Miðöldum.
Næst fórum við af stað í átt að lestarstöðinni. Með bakpokann svitnaði ég rosalega. Á leiðinni sáum við okkar ástkæra Hotel Terminus sem við gistum á síðast. Gaman að láta sig dreyma um að vera á þriggja stjörnu hóteli í stað núll stjörnu hostels. En nóttin þar kostaði víst meira en fjórar nætur í Gustaf av Klint þannig að þetta er að því leyti betra.
Á lestarstöðinni redduðum við okkur miðum og fengum okkur smá nesti. Minnisatriði fyrir næstu Svíþjóðarferð: Sænsk kók er gott en þeir flytja líka inn vont kók, Zingo er fínt appelsín og Loki léttkolsýrt með sítrónubragði er gott.
Núna er klukkan 18:13. Við stálum okkur sætum við gluggann og plötuðu Svía til að taka gangsætin. Þeir hafa líka vonandi séð landslagið áður. Það er líka þægilegra að vera með tölvuna hér því hérna er tengill.
Aftur í glæpabænum
Borlänge þann 6. ágúst, klukkan 00:31 að sænskum tíma Við komum á góðum tíma til Borlänge. Anna og Martin voru ekki einu sinni komin á stöðina þegar lestin okkar rann í hlað. Við röltum síðan heim til þeirra. Anna býr eiginlega í næsta húsi við fyrra heimili sem er svoltið skrýtið. Eygló vildi fara strax í sturtu og ég fylgdi í kjölfarið. Síðan borðuðum við mjög gott lasagna í bakgarðinum. Eygló var með einhverja drauma um að sofa úti en það hvarf þegar dimma tók.
Ég sýndi Önnu og Martin ótal myndir, aðallega af Sóleyju litlu. Síðan spiluðum við Yatzí sem ég vann með miklum yfirburðum en Eygló varð í öðru sæti. Þegar við Eygló kíktum á netið inn í tölvuherberginu hér þá urðum við bæði sjóveik, Eygló kenndi veggfóðrinu þar um. Við spjölluðum síðan fram yfir miðnætti og fórum síðan að sofa. Ég á dýnu á gólfinu og Eygló í sófanum.
Það hljóta að vera til eplatré í öðrum löndum
Gustaf af Klint þann 7. ágúst klukkan 01:21 Það er hætt að afgreiða áfengi á barnum en við sitjum hérna hress og kát. Nema pörin. Við Eygló erum ekki par því hún þekkir þetta fólk svo vel.
Við vöknuðum um klukkan 10:30 í morgun í Borlänge. Við fengum okkur léttan skandínavískan morgunverð í sólinni. Við röltum síðan um bæinn. Jussi Björling safnið var opið en við slepptum því, hefðum kannski farið ef Eygló hefði verið með ISIC skírteinið sitt til að fá afslátt. Á röltinu rákumst við á epli og eplatré. Ég greip mér epli og borðaði. Það var fínt, svoltið súrt en gott.
Við skoðuðum aðaltúristastað Borlänge, Köphulen verslunarmiðstöðina. Þar vildum við kaupa lök, Loka og lás. Við fengum engan lás fyrir ferðatölvuna en við fengum lök og Loka. Við fórum í Elkó þeirra í Borlänge og keyptum okkur X-Men 2 á dvd. Síðan fórum við í sólbað eftir hádegið. Þá fengum við pönnukökur með ís. Jömmí gott. Við röltum síðan á lestarstöðina og kvöddum parið unga. Lestarferðin var ágæt, reyndar datt bakpoki næstum á mig en ég bjargaðist.
Við tókum taxa af lestarstöðinni. Bílstjórinn villtist reyndar en við náðum að útskýra fyrir honum að þetta væri næsti bátur við sjóræningjaskipið Patriciu. Við vorum snögg að dömpa draslinu á hótelið. Við hringdum í fullt af þjóðfræðinemum til að spyrja hvernig gengi hjá þeim, það var bara Helga Jóna sem svaraði. Þau voru komin í Gröne Lund þannig að við drifum okkur í ferjuna þangað. Við hringdum síðan aftur í Helgu Jónu til að fá leiðbeiningar að hópnum. Helga Jóna sagði okkur að finna víkingaskip sem við og gerðum, samt fundum enga þjóðfræðinema. Við gáfumst loks upp á að nota leiðbeiningar frá henni og notuðum kort í staðinn. Við fundum þá loks annað víkingaskip og þá þjóðfræðinemahóp.
Við keyptum okkur miða í tækin, ekki marga þar sem ég bjóst ekki við að fara í mörg tæki. Fyrsta skemmtunin var skemmtilegust. Undarlega húsið. Það byrjaði reyndar illa því ég var að klifra upp stiga sem hreyfist og Eygló fór alltof snemma á eftir mér. Það bjargaðist þó. Síðan tóku við ýmsar þrautir, þar á meðal göng sem voru þannig að brúin sem maður var í virtist hreyfast. Eggert fríkaði út þar. Á leiðinni út var töfratepppi sem við Eygló fórum saman á. Á leiðinni fór fóturinn minn útfyrir teppið og ég brann á hælnum. Ég öskraði af sársauka en Eygló af hræðslu. Án þess að við vissum af því var tekin mynd af þessu. Hún er glæsileg. Ég held fallega um brjóstið á Eygló sem öskrar. Hin höndin er með myndavéina reiðubúna.
Til að verja brunasárið reyndi ég að setja upp plástur en hann datt sífellt af. Að lokum fór ég í annan sokkinn og var í kjölfarið ítrekað spurður hvers vegna ég væri í honum. Eygló fór í Parísarhjól, Rússíbana og fleira með þjóðfræðifólkinu. Á meðan stóð ég klyfjaður töskum og myndavélum hugrakka fólksins. Ég reyndi að skjóta með loftbyssu en hitti ekkert. Jón Kr. fékk hins vegar 47 stig af 50, það dugði samt ekki fyrir neinum verðlaunum. Ég reyndi síðan að sprengja blöðrur með pílum en fékk samt sæta kanínu í skammarverðlaun væntanlega.
Ég var loks plataður í eitt tæki, barnarússíbana. Það gekk ágætlega, ég hélt ég myndi fríka út og blótaði Sigrúnu Ísleifs sem hafði stungið upp á þessu. En ég fór aldrei yfir strikið í útfríkinu. Ég gleymdi samt veskinu hennar Jóhönnu þarna og fattaði það ekki fyrren seinna. Það fannst sem betur fer. Við Eygló keyptum okkur pizzu saman og gáfum Jóhönnu sneið og kók í sárabætur. Hún er reyndar búin að fá töskuna sína aftur.
Við kláruðum pizzuna og tókum ferjuna heim. Ég kom mér síðan fyrir upp á þilfari og sýndi fólki myndir, bæði mínar og síðan annarra líka. Færðum okkur síðan loks niður og héldum áfram spjalli. Klukkan að verða tvö. Sigrún Ísleifs er komin með áfengi þannig að vínsölubannið hefur ekki of mikil áhrif.
Closing time
Gustaf af Klint, káeta 11 klukkan 04:00 Ég gleymdi að tölvan slökkti á sér í miðju lagi og þegar ég kveikti á henni núna rétt áðan þá byrjaði hún að spila Tom Waits lagið sem var í gangi þegar batteríið tæmdist. Vona að Eggert fyrirgefi.
Við entumst aðeins lengur. Eggert fór eiginlega fyrst að sofa. Hann kom samt aftur upp til að tilkynna okkur að Ítalinn sem er alltaf að raða í töskuna sína fram á gangi hafi spurt hvort við Eggert værum par. Svarið hefur væntanlega verið nei og því fer Ítalinn væntanlega að reyna við Eggert.
Fleiri gáfust upp þegar klukkan var orðin þrjú. Við Sigrún Ísleifs og Jóhanna vorum síðust en Jóhanna fór þegar hún kunni ekki lögin sem við vorum að syngja. Við sungum og spjölluðum aðeins lengur. Eftir að ég stríddi henni fyrir að bjóða mér ekki tópasvínið sitt þá fékk ég mér tvo sopa af því og þótti gott. Ég hafði einmitt fengið sopa frá Eygló í fyrra kvöld. Eftirbragðið er þó frekar ógó. Við vorum samt ekki of lengi þarna heldur drösluðum okkur niður að sofa.
Fyrramálið verður áhugavert.
Brunasárið á hælnum er ekki jafn hrikalegt og það ætti að vera en vont samt.
Sólstrandargæjinn
Matsalurinn í Gustaf af Klint þann 8. ágúst 2006 klukkan 00:11 að sænskum tíma.
Þrátt fyrir að hafa sofnað eftir fjögur í nótt þá vaknaði ég rétt eftir átta. Við Eygló fórum á fætur, ég fór í sturtu og við borðuðum morgunmat. Eggert, Rósa, Jónbjörn og Sigrún Ísleifs voru líka vöknuð. Við byrjuðum á að afskrifa ferð til Birka sem hefði kostað þrjá tíma í siglingu í heildina. Eygló vildi endilega prufa að fara á ströndina í Langholmen. Við vorum öll til í það (reyndar hafði Lukka ætlað en síðan hætt við).
Leiðin á ströndina var svoltið flókin. Við byrjuðum á að fara í búð. Ég keypti einn og hálfan lítra af Loka citron með smá kolsýru. Eygló fannst það mikið en ég kláraði það eiginlega um leið og við komum á ströndina. En ég fór framúr sjálfum mér. Við tókum Metróinn (neðanjarðarlestina) langt úteftir. Það var ókeypis í lestina af einhverjum ástæðum, líklega bilað miðakerfi. Þegar við komum út af lestarstöðinni hittum við gamlan kall í göngugrind sem hélt að við værum þýsk og gaf okkur leiðbeiningar á Þjóðverjatungu. Reyndar voru upplýsingarnar ekki gagnlegar þannig að við þurftum að snúa við. Sumir hótuðu að berja gamla kallinn (beindu þó ekki hótunum að honum sjálfum).
Næst tók við heljarinnar leit að ströndinni. Við þurftum að klifra upp á Langholmen og fara aftur, síðan fórum við út og suður, fram og til baka. Við fundum fyrst tvær örlitlar baðstrendur sem hefðu rúmað cirka eina manneskju hvor en við ákváðum að leita betur. Við fundum loks þessa spennandi Nauthólsvík Stokkhólmsbúa og komum okkur í viðeigandi klæðnað. Við Eggert fórum út í skóg þó ég hafi ekki verið sérstaklega spéhræddur þá. Við Eygló, Eggert og Rósa fórum strax út í, Sigrún sólaði sig en Jónbjörn fór að leita að salerni, fann kaffibolla á leiðinni. Vatnið var kalt. Það var mjög erfitt að komast þannig að það færi upp fyrir mitti og síðan líka vont að koma því upp fyrir geirvörtur. Eftir smá tíma í vatninu ákvarðaði ég að ég myndi fela mig vel ef ég klæddi mig aftur í á ströndinni, kalda vatnið var að hafa sín áhrif einsog var gert frægt í Seinfeld.
Við dúlluðum okkur á ströndinni og í vatninu. Rósa, Eygló og Eggert syntu á eftir öndum en náðu þeim ekki. Á meðan við sátum á ströndinni urðum við fyrir ítrekuðu ónæði frá geitungum. Hann rölti aðeins um á mér. Ekki notalegt en hann gerði mér ekkert. Við ákváðum að koma okkur af stað. Sigrún fann strætisvagnaleið að Nordiska safninu. Ég ákvað að treysta henni í blindni og það virkaði. Strætisvagninn fylltist af fólki í bænum og loftið þar var frekar óbærilegt. Nordiskasafnið var skemmtilegt, svanurinn flottur en ég fékk nóg af dúkkum, vefnaði og fötum. Við Jónbjörn fundum okkur reglulega bekki til að setjast og liggja á. Eggert hafði aðeins meiri áhuga á þessu en settist stundum með okkur.
Eftir Nordiska fórum við niður í bæ. Við Eygló slitum okkur fljótt úr hópnum og röltum heim. Við stoppuðum hjá konungshöllinni og horfðum á vopnaða smástráka. Niður í bát sannfærði ég liðið (alla nema Jóhönnu og Helgu Jónu sem fóru að skoða gömul heimkynni þeirrar fyrrnefndu) um að ráfa niður Stora Nygatan í leit að veitingahúsi. Það þurfti þrjár tilraunir til að komast inn á stað sem hefði pláss fyrir tíu manns. Reyndar var veitingastaðurinn sem við fundum ekki mjög spes. Hann var ítalskur, maturinn var fínn en það tók rúman klukkutíma að elda fyrir okkur. Maturinn var ágætur. Ég fékk mér hálfmána.
Ég hafði ákveðið að taka liðið með í Riddarahólminn og fólkið var til í það. Ég kynnti fólkið fyrir Birgi jarl, stofnanda Stokkhólms. Það var klappað fyrir honum. Ég vildi líka rölta í kringum kirkjuna og það var hæðst að áhuga trúleysingjans á húsi Jesú. Mér finnst kirkjan allavega falleg og skammst mín ekki fyrir það. Mér finnst hallir líka oft fallegar þó ég sé voðalegur andstæðingur konunga.
Á leiðinni heim var ákveðið að koma við í Pressbyran. Ég ákvað að prufa nýja leið að búðinni og leiddi fólkið í gegnum ýmis göng. Við enduðum loks á réttum stað og keyptum snarl fyrir nóttina. Núna erum við komin inn. Við Eygló kenndum Eggerti og Sigrúnu Ísleifs Catan. Ég var kominn með sjóriðu þegar ég starði á spilaborðið. Eygló var líka orðin þreytt þannig við kláruðum ekki spilið. Flestir eru farnir að pakka en við Jón Kr. sitjum hérna og hann er að segja mér siglingasögur. Full ógeðslegar sumar sögurnar hans en áhugaverðar.
Gotland á morgun.
Karoni falinn
SF 1500 ferjan, matsalur klukkan 12:51 að sænskum tíma þann 8. ágúst 2006 Einhverjar tilkynningar í gangi. Við sitjum hérna í matsalnum og erum að leggja af stað til Visby. Við vorum snögg að koma okkur á fætur í morgun. Við Eygló náðum meira að segja að fara í sturtu. Við tókum þrjá taxa niður að lestarstöð, komum hvert í sínu lagi en náðum samt að hittast öll aftur. Nokkur okkar skruppu á netið áður en við fórum að rútunni.
Rútubílstjórinn var eitthvað hálffúll við okkur að heimta að vera öll saman og að hafa farangurinn okkar allan í sömu rútunni en hann gaf samt eftir. Ég dottaði meirihluta ferðarinnar að Nyhavn. Það gekk vel að ná í miðana, þurftum reyndar að afbóka Silju á staðnum en það var ekkert mál. Við fundum okkur líka öll stað til að sitja saman á. Reyndar ekki við glugga en þetta er bara fínt. Fólk situr og skoðar túristabæklinga, borðar, lagar á sér neglurnar, tekur myndir eða bloggar.
Papparazzi
Bústaður númer 6 í Visby fangelsinu, klukkan 01:57 að sænskum tíma þann 9. ágúst 2006 Ég er einn heima, hin út að skemmta sér. Ég er ekki bitur innipúki sem vill djamma fram á nótt en má það ekki heldur trúleysingi sem var að svara undarlegri svargrein sem kom víst í Mogganum í dag. Þægilegt að hafa smá netsamband.
Siglingin hingað gekk annars vel. Skipið var svo stórt að það haggaðist varla. Ég fékk mér hakk og spagettí sem var fínt, Eygló fékk sér hins vegar salat með beinum. Við röltum aðeins um þilfarið og ég þorði meiraðsegja að ganga að handriðinu og horfa niður. Við sátum og spjölluðum, sumir spiluðu og Jónbjörn splæsti nammi á liðið sem kætti mjög. Sjálfur tók ég síðan smá tíma fyrir sjálfan mig og hlustaði á Sheer Heart Attack í heild sinni í mp3 spilaranum.
Þegar út úr bátnum var komið og allur farangur fundinn þá tók Eggert við stjórninni og leiddi okkur í blindni að fangelsinu. Reyndar var móttakan lokuð þegar við komum um 16:25 en við vorum bara róleg þar sem við vissum að hún opnaði klukkan fimm. Við Eygló skiptum um herbergisfélaga og erum núna með Jóhönnu, Hlynur bætist við á morgun. Parastemming.
Við erum í svona litlum bústað fyrir utan gamla fangelsið í stað þess að vera í gömlum klefa sem hefur verið breytt eins og hin. Get ekki sagt að ég syrgi það. Við erum með ísskáp hér og tvær þriggja hæða kojur. Við erum með verönd til að sitja á og stóra glugga sem opnast út. Getum líka opnað hurðina í loftleysi. Semsagt algjör paradís miðað við bátinn. Kostar líka aðeins meira en þó ekki dýrt.
Við tókum því bara rólega fyrst um sinn en fórum út að borða um sjöleytið. Við fórum á Skepsbronen sem er næsta veitingahús við fangelsið. Ég fékk mér Kebabpizzu sem var mjög góð. Á henni var líka pepperoni sem er einhver pipar en ekki kjöt. Reyndar var slæmt að maturinn var ekki mjög fljótur að koma þar sem við áttum að mæta klukkan átta til að hitta háskólafólkið. Við Eggert, Eygló og Jónbjörn stungum af á undan (ég reyndar sá eini sem hafði tíma til að klára matinn) til að Owe og Karina héldu ekki að við hefðum stungið þau af.
Við fengum æðislega leiðsögn um Visby frá Owe. Hann sagði okkur frá borginni og miðaldahátíðinni. Þessi kennslustund verður manni verðmæt næstu vikuna. Við sáum elstu húsin, múrinn, spjölluðum um ímyndir Visby og sögu. Stálum okkur brómberjum (mullberry) af tré eftir ábendingu frá etnólógistanum. Við sáum líka upptökur á þýskum þriller og líka hús sem kom fram í mynd um Línu Langsokk.
Það er fullt af fólki hér í miðaldabúningum en finnst ekkert athugavert við að tala í farsíma á meðan það leikur hlutverk sitt. Sumir virðast reyndar tilheyra endurreisninni frekar en miðöldum. Skiptir ekki öllu máli. Ég tók myndir af fólkinu og eftir eina laumulega myndatöku var ég úthrópaður sem Papparazzi af miðaldakonu. Ferðafélögunum fannst það ekki lítið fyndið. Í lok ferðarinnar hittum við einhvern undarlegan Svía sem vildi endilega að við hlustuðum á hann spila einhvers staðar. Veit ekki hvort hópurinn endaði þar en ég nennti því allavega ekki.
Við fórum heim, sumir fóru í búninga en aðrir komust á netið. Einhverjr voru með töluverða minnimáttarkennd eftir að hafa séð fólk í flottum búningum niðrí bæ. Reyndar voru sumir alveg voðalega einfaldir eins og okkar. Við röltum síðan út á næstu krá og ég fékk mér fokdýrt gosglas. Var ekki alveg í stuði og fór heim. Ég skrifaði sem fyrr segir svargrein og fór yfir myndir dagsins. Tók rúmlega 300 stykki en fækkaði þeim töluvert í yfirferðinni.
Ég tók síðan áðan og veiddi einhverja ógeðspöddu. Veit ekki hverrar tegundar hún var en þetta var vibbi. Held að stelpurnar hefðu verið ósáttar við að fá hana upp í til sín.
En ferðasaga dagsins er komin, þau eru ennþá úti en ég hlusta á Pet Shop Boys og er með sjóriðu eftir gistinguna í bátnum en ekki ferjuferðina.
Gengið til altaris
Bústaður númer sex klukkan 10:02 þann 9. ágúst 2006 Ég vaknaði snemma til að fara í miðaldamessu og kirkjusiðafyrirlestur. Jóhanna og Eygló ákváðu að sofa lengur. Ég fór í sturtu, rölti úti á nærbuxum fram og til baka. Voðalega frjálslegur. Ég kom í morgunverðarsalinn um klukkan átta og þá sátu Rósa og Eggert þar borðandi. Maturinn var vægast sagt óspennandi. Brauðið þurrt og áleggin léleg.
Við þrjú lögðum af stað ásamt Jóni Kr. sem líka vaknaði snemma. Ég ráfaði um bæinn eftir minni en Rósa notaði kortið til að fínpússa stefnu okkar. Messan hafði byrjað klukkan átta og við þurftum því að laumast inn. Það var lítið að gerast þegar við komum en síðan var gengið til altaris. Þar sem ég leit á þessa messu sem sýningu en ekki alvöru helgiathöfn þá ákvað ég að vera með í leiknum. Hin komu með mér. Ég fékk mér eitt stykki hold Krists en ég ákvað að sleppa blóði krists þar sem ég bjóst við að það gæti verið hálfógeðslegt á bragðið. Ég hefði kannski getað eytt blóðbragðinu með aukaskammti af holdi en ég kunni ekki við að fara aftur í röðina. Sumir dýfðu holdinu í blóðið til að fá betra bragð en ég fattaði það ekki fyrren ég hafði látið holdið upp í mig. Það hefði væntanlega verið ósmekklegt að taka hold Jesú úr munninum til að dýfa því í blóð hans. Einhver smithætta en kannski það skipti litlu máli í mannáti.
Messan var voðalega óspennandi. Hún fór fram á sænsku sem mér þótti ekki nógu miðaldalegt. Síðan var kirkjusiðafyrirlesturinn líka frekar mikil vonbrigði. Í stað þess að tala um kirkjusiði miðalda þá fór presturinn að tala um táknfræði kristni og var eiginlega bara með predikun. Af hverju var ekki fenginn fræðimaður í þetta djobb? Þegar hann fór í tæknifóbíska gírinn sem prestar eru svo gjarnir á að festast í þá ákvað ég að fara. Þar sem ég sat fremst þá var það nokkuð dramatískt. En já, það var merkilega auðvelt að skilja sænskuna.
Ég ráfaði síðan heim og hitti Eygló og Jóhönnu í morgunverðarsalnum. Þær voru ekki mjög sælar með matinn.
Sjóriðufyrirlestur
Bústaður númer 6 í fangelsinu þann 9. ágúst 2006 klukkan 19:56 Við slæptumst aðeins og fórum síðan af stað til að fá fyrirlestur frá rektor Gotlandsháskóla. Það var ágætis kynning. Ég fékk reyndar sjóriðu í miðjum fyrirlestri, hugsanlega af því að salurinn minnti á skip. Síðan brá mér þegar Eggert sagði að það væri skólaprestur þarna. Hvað í ósköpunum gæti komið upp á í skólanum sem réttlætir það að það þurfi að hafa prest á staðnum? Eru ekki nógu margir prestar á Gotlandi? En þetta er eðli presta, þeir hafa glatað hlutverki sínu og reyna að skapa nýjar gerviþarfir.
En við hittum líka Peder og gáfum honum Brennivín. Hann er semsagt fyrrverandi skiptinemi við HÍ sem Elli kynnti okkur fyrir. Hann bókaði fyrir okkur herbergi í fangelsinu og hjálpaði með fleira.
Eftir þetta var farið í System Bolaget. Ég fór reyndar að kaupa mér aukalak til að sofa undir á meðan þeirri verslunarferð stóð. Við Eygló fórum síðan og keyptum okkur hinn fræga Visby Glass. Ég fékk mér vanillu, kaffi og lakkrískúlur. Það var voða gott. Verra var þegar geitungur vildi fá leyfarnar úr skegginu mínu. Ég get þolað geitunga sveimandi í kringum mig, röltandi um á handleggnum en ég dreg strikið við að fá þá í skeggið. Það kom enginn píkuskrækur frá mér en ég hljóp svoltið um.
Næst fórum við á tvo markaði, sá fyrri var nokkuð hefðbundinn en seinni var aðal miðaldamarkaðurinn. Hann var ótrúlega flottur. Búningar, vopn og hvaðeina sem má flokka sem miðaldalegt. Ýmislegt áhugavert til að borða. Til dæmis voru nammiepli sem virtust mjög góð en þau voru umkringd geitungum. Við ákváðum að sleppa þeim. Ég fann mér miðaldabuxur sem ég keypti. Skyrtan var nokkuð flott en full þykk fyrir veðrið hérna. Keypti líka pyngju fyrir myndavélina.
Við rákumst síðan á hópinn okkar þar sem Owe og Ulv voru að spjalla við þau. Það var nokkuð gaman að hlusta á þá. Ég vissi til dæmis ekki að það væru til sænskar sekkjapípur. Eftir þetta fórum við aftur á markaðinn með hópnum en splittuðum okkur fljótt frá. Við fengum okkur síðan ekta sænskt miðaldakebab í baguette brauði. Ég fékk mér tómatssósu en Eygló fékk sér drukknandi flugu sósu. Bæði fengum við eitthvað óspennandi rautt djús sem átti væntanlega að vera voða miðaldalegt. Við áttum huggulega stund borðandi við ströndina þar til að við sáum að það væru maurar og flugur út um alls. Eygló missti alla matarlyst.
Röltum aftur í fangelsið og dunduðum okkur aðeins þar en fórum síðan að rölta um bæinn. Enduðum í matvöruverslun þar sem við keyptum Loka, Kók og eitthvað afsláttargos. Erum núna í fangelsinu umkringd klæðskiptingamiðaldafólki. Erum að fara út að borða með Jóhönnu, Hlyn og Eggert um leið og sá miðnefndi kemur með ferjunni.
Vem kan segla forutan vind?
Bústaður númer 6 í fangelsinu þann 10. ágúst árið 2006.
Við fórum reyndar ekki strax út að borða heldur fórum við Eygló, Eggert og Sigrún Ísleifs að horfa á eldgleypaleikrit. Við vorum öll í búningum. Ég náði nú minnstu af því sem fram fór og missti af magadansinum. Við mæltum okkur síðan mót við Lukku, Jón Kr., Jóhönnu, Hlyn og Helgu Jónu. Saman fórum við að borða á einhverjum restiranginum. Ég fékk mér hálfmána sem var mjög góður. Reyndar varð misskilningur til þess að ég fékk hálfmána með sveppum. Ég svissaði þá á diski við Sigrúnu sem hafði einmitt pantað slíka pizzu. En nei, það voru líka sveppir í hennar. Við skyldum þetta ekki fyrren eftir á þegar Jóhanna kvartaði yfir að vera að borga sveppi sem hún ekki fékk.
Við röltum síðan heim. Á leiðinni var gert smá grín að Eggerti útaf ítalska aðdáanda hans sem virðist hafa elt hann til Visby, beið eftir honum fyrir utan fangelsið og gaf frá sér undarlegt hljóð þegar Eggert birtist. Þetta endaði með því að ég hljóp heim á undan Eggerti, eða undan Eggerti frekar.
Ákveðið var að hafa verandarpartí hjá okkur. Við komum okkur fyrir og fórum að syngja ýmis vel valin lög. Meðal annars tókum við upp flutning okkar á Til hamingju Ísland fyrir Kristínu Einarsdóttur kennara. Við fengum síðan tvo Svía í heimsókn. Þeir höfðu gaman að og við sungum fyrir þau vel valin íslensk og erlend lög, sérstaklega sænsk. Vem kan segla forutan vind er alltaf í uppáhaldi hjá mér. Við sungum það oft á söngsal í MA. Sá Svíi sem hékk lengst með okkur heitir Magnus og sagði að hann væri frá ómerkilegum bæ sem kallaðist Höfde. Ég sagði honum að ég ætti nú vin í háskóla þar og þekkti marga sem hefðu farið þangað. Þetta kom honum á óvart. Ég lenti líka í að þýða mjög langa sögu frá Jóni Kr. fyrir Svíann. Sú var merkilega laus við söguþráð og tilgang. Jón sagði frá forfeðrum sínum með undarlegum smáatriðum. En það var bara fyndið. Jón Kr. á reyndar margar áhugaverðar og góðar sögur en þetta var ekki ein þeirra. Hugsanlega að sagnamennska hafi farið illa útúr þýðingarstoppum.
Annars þá fengum við góðan gest áðan. Broddgöltur kom og rölti um. Hann tók félagsskapnum bara vel og ég klappaði honum meiraðsegja. Við tókum nokkrar myndir af honum.
En við í bústað númer sex erum komin í rúmið en Jón Kr. situr enn fyrir utan, líklega með Helgu Jónu og Magnus.
Á flótta
Bústaður númer 6 klukkan 01:31 þann 11. ágúst 2006 Við vöknuðum um níu í morgun. Fengum okkur lélegan morgunmat og dáðumst að dauðum geitungi í stelpubjórnum hennar Lukku. Við röltum með Rósu, Jónbirni, Sigrúnu Ísleifs og Eggerti að minjasafninu og skoðuðum það. Það var alveg ágætt. Tók stutt af.
Við komum okkur síðan heim til að klæða Eygló í búning. Ég, Eygló, Sigrún, Sigrún, Addi, Eggert, Jóhanna og Hlynur fórum síðan í skrúðgöngu. Við vorum öll í búningum. Þetta var gaman en reyndar hefði líklega líka verið mjög gaman að vera bara áhorfandi.
Eftir þetta fórum við á bogfimisýningu. Það var ágætt en við stungum snemma af og fórum síðan að borða. Við Hlynur og Eggert gerðumst svo frægir að við borðuðum sænskar kjötbollur. Þær voru mjög fínar. Í miðjum matnum kom Ítalinn sem elskar Eggert. Hann heilsaði mér en horfði mjög fallega til Egggerts. Þegar hann rölti burt setti ég þurrku fyrir munninn svo að það sæist ekki að ég væri í hláturskasti.
Ég nennti ekki í búðir með Eygló þannig að við Eggert og Hlynur röltum saman í minjagripabúðir. Ítalinn var nálægur og við stungum af niður í næstu götu. Næst þegar það gerðist þá hafði Hlynur farið eitthvað frá. Við Eggert röltum hratt og örugglega niður í næstu hliðargötu og þaðan í felur. Heppilegt að geta talað íslensku með eðlilegum róm til að útskýra flóttaleiðina. En þegar við komum aftur þá var Hlyn hvergi að finna. Ég kallaði á eftir honum og við röltum áfram en fundum hann ekki. Við höfðum töluverðar áhyggjur af honum. Við fórum aftur í fangelsið og þar var hann ei.
Við fórum þá af stað til að hitta fólkið á spunakeppni sem fór fram í St. Karin rústunum. Við Eggert vorum lengst af einir en síðan birtust Addi og Sigrún. Á leiðinni inn sáum við síðan hið áberandi græna höfuðskraut Sigrúnar Ísleifs. Hittum hana inni. Jóhanna, Helga og Lukka komu líka þarna inn. Þarna var okkur tilkynnt að það kostaði ekkert inn en 20 krónur ef maður vildi fara út eftir ákveðinn tíma. Flestir komu sér burt. Ég vildi ekki vera þarna þar sem Eygló var ekki komin og var næstum búinn að fara þegar hún birtist. Við Eygló, Eggert og Sigrún Ísleifs fórum því aftur inn.
Þetta var mjög gaman. Sérstaklega var fjör þegar sænskan vék fyrir líkamsgríni. Áhorfendur voru látnir meta frammistöðu keppenda með klappi. Mikið fjör. Reyndar varð ég svoltið þreyttur og sat dáltið lengi. En þetta var bara skemmtilegt og indælt umhverfi.
Þegar þessu lauk röltum við aðeins um verslunargötuna, komum snöggt við á hótelinu og fórum síðan að borða á ekta sænskum víkingapizzastað. Afgreiðslumaðurinn var frekar kuldalegur og maturinn ekki mjög spennandi. En ódýr. Það var líka spes að sjá viðskiptavin þarna í víkingaklæðnaði talandi við afgreiðslumann sem var líklega frá Miðausturlöndum. Tónlistin á staðnum var líka ættuð þaðan. Víkingapizzustaður í fjölmenningarsamfélagi. Eygló fékk síðan glaðning í pizzunni sinni. Það var plast úr einhvers konar dollu. Hún fór og bað um endurgreiðslu, henni var boðin ný pizza en vildi ekki þar sem hún var hálfnuð með þessa. Að lokum fengum við eina litla kókdós.
Við sáum voðalega fallegt sólarlag á meðan við biðum eftir að fara á tónleika í Skt. Lars rústunum. Tónleikarnir voru góðir en bekkirnir óþægilegir. Eftir þetta fórum við heim. Gerðum síðan tilraun til að kaupa ís og vorum með verandarpartí. En það var ekki jafn gaman og í gær, líka of kalt. Ég fór þá inn að yfirfara myndir og skrifa ferðasögu. Gott að hafa ekki neinar óyfirfarnar myndir lengur.
Hljóðfæri keypt
Fangelsið, bústaður sex, 15:43, Gotland, þann 11. ágúst 2006 Við sváfum út í morgun. Fórum á ról um ellefu leytið. Ég útbjó mynd til að láta á boli ef fólk vill fá sér. Á honum er fáni Gotlands og smá texti um ferðina. Við Eygló fengum okkur samlokur í ísbúðinni sem er hérna rétt hjá. Allt í lagi, allavega mikið betri en morgunverðurinn í fangelsinu. Við kíktum á bolaþrykkjarann og spurðum út í kostnað við boli. Þurfum að spyrja alla í kvöld hvort þeir vilji vera með.
Við röltum síðan um markaðinn. Ég keypti mér Okarinu sem er fornt blásturshljóðfæri. Hef síðan verið að gleðja fólk með tónlistarflutningi mínum. Við, Eggert, Sigrún Sigmars, Addi, Jóhanna og Hlynur hittum Karinu, Peder og einhvern nema (Eggert segir Sara) í viðbót á bókasafninu og spjölluðum við þau. Það var mjög gaman.
Næst fórum við að leigja hræ. Við fengum níu manna VW til að ferðast um Gotland með á sunnudag. Það mun kosta um 500 krónur sænskar í heildina. Ódýrt. Erum núna að dunda okkur í fangelsinu en förum væntanlega að fá okkur ís eða eitthvað næst.
Bolir þrykktir
Fangelsið, bústaður sex, þann 12. ágúst, klukkan 01:44 að sænskum tíma Við röltum að kaupa okkur ís. Fórum síðan í ríkið og búðina. Við fengum okkur líka Gotlandsboli að hönnun Óla. Þeir eru ágætlega flottir. Svo var farið aftur heim og síðan fórum við Eggert á tónleika. Eygló nennti ekki og Sigrún Ísleifs kom of seint til að fá að koma inn. Skemmtilegir tónleikar.
Níu af þrettán manns fóru í mat, reyndar bættist Eggert við á síðustu stundu þannig að við voru tíu. Við höfum ekki verið svona mörg saman síðan á þriðjudag. Ég pantaði mér cajun nautasteik. Af einhverjum ástæðum fékk ég eða Lukka franskar með þessu. Við vissum ekki hvort átti franskarnar svo við deildum þeim bara enda stór skammtur. Ég notaði bernaisesósuna fyrir franskarnar. Eygló fékk líka gratíneraðar kartöflur sem ég fékk mér líka af. Stór máltíð. Fólk var í stuði fyrir ís eftir þetta og ég ákvað að vera með þó ég fengi mér minni skammt en venjulega.
Fórum heim í smá verandarpartí og fórum síðan á skemmtistaðinn FS. Þar er fólki ekki hleypt inn nema í búningum. Ég var nokkuð fljótur komast yfir það að finnast það skemmtilegt að allir séu í búningum (enda búinn að venjast búningunum almennt) þá fannst mér þetta ekki spennandi staður. Bara venjulegur. Hljómsveitin var líka í hléi. Sigrún Ísleifs hafði fundið ástralskan Svía sem spjallaði mikið við okkur. Hann ætlaði meiraðsegja að senda mér póst og fá meðmæli um bækur. Við náðum hljómsveitinni í smá stund en vorum eiginlega ekki í neinu stuði þannig að við komum okkur bara heim aftur.
Farinn að sofa.
Burtreiðar
Fangelsið klukkan 08:50, þann 13. ágúst 2006, bústaður sex Við fórum seint á fætur í gær. Fórum á marga staði til að finna einhvern hentugan fyrir morgunmat en það gekk seint. Loks fórum við í nunnubakaríið og borðuðum þar. Jónbjörn náði glæsilegum árangri sem fyrr í samanburðarmálfræði þegar hann bað um fokkatsía með osti og skinku. Sum okkur reyndu hins vegar að læra framburðinn og báðum hjuínka (sirkabátt). Maturinn þarna var frekar óspennandi. Hápunktur morgunverðarins var þegar Eygló veiddi geitung í appelsínu flöskuna með því að láta lítið glas yfir. Helgu fannst glasið ekki loka geitunginn nógu vel inni þannig að hún þrýsti því niður svo að glasið brotnaði.
Við röltum síðan sitt á hvað. Við Eygló fórum í einhverjar búðir. Síðan enduðum við niður á hóteli og settumst að spjalli. Við fórum síðan heilmörg saman á Túrnament. Það var gaman. Við vorum sett þeim megin sem „Landet“ var en hinum megin var „Stann“ eða „Standet“. Sveitin gegn Visby skilst mér. Við áttum síðan að styðja okkur bardagamenn með köllum og púa á andstæðingana. Þetta var bara fjör. Sumir bardagarnir voru frekar mikið feik, þá sérstaklega burtreiðin sjálf í lokin en það er væntanlega bannað að drepa fólk hér í þágu skemmtunar. Einn riddarinn okkar, sá guli, lék voðalega vel að vera fúll og hrokafullur. Gerði ítrekað lítið úr skjaldsveini sínum og fleygði frá sér vopnunum þegar eitthvað mistókst. Á svæðinu voru líka skemmtikraftar sem gleyptu meðal annars eld. Þær, þetta voru stelpur, voru líka að fíflast í andstæðingum okkar. Í eitt skiptið varð riddari andstæðingana svo reiður að hann ætlaði að drepa hana en áhorfendur báðu um náð fyrir hana… eða allir nema ein lítil stelpa sem öskraði „stinga!“.
Við röltum síðan á veitingahúsið þar sem við höfðum fengið okkur sænskar kjötbollur. Við Eggert endurtókum leikinn og fengum okkur þjóðarréttinn en hinir fengu eitthvað texmex eða pizzur. Af hverju ekki fá sér ekta sænskt? Reyndar var leiðinlegt að allir komu þarna nema Jóhanna sem einhvern veginn týndist þegar var verið að koma öllum á staðinn.
Um kvöldið fórum við og fengum okkur ís. Síðan fórum við að sjá bogskyttur skjóta logandi örvum í hafið. Það var mjög flott.
Þegar við komum heim fengum við sænskan Íslending í heimsókn. Sungum fyrir hann íslensk lög og sungum með honum sænska þjóðsönginn. Það var fjör. Sumir entust heillengi en aðrir fóru snemma til að verða hressir fyrir bílferðina í dag. Núna er verið að smala fólki á fætur. Við Eggert og Jón Kr. erum síðan að fara að ná í bílinn á eftir.
Í leit að besta kaffihúsi Gotlands
Þriðja hæð fangelsins þann 13. ágúst klukkan 23:01 Við náðum í bílinn eins og lofað var. Eðaldrusla alveg. Ég giska síðáttundaáratugsmódel af VolksWagen, ekkert kom fram í pappírunum um raunaldur hans. Allir komust á fætur á góðum tíma. Við Eygló, Hlynur og Jóhanna tókum til í bústaðnum okkar og skiluðum lykilinum. Eina herbergið sem við höfðum áfram var 6 manna herbergið. Þar var farangrinum plantað. Við komum okkur af stað rúmlega tíu. Við keyptum bensín og stungum af.
Það gekk nokkuð greiðlega að rata. Vegakerfi Gotlands er svipað og gatnakerfi Visby, maður endar að lokum á réttum stað. Við byrjuðum á að taka túr um dropasteinshelli. Það var bara nokkuð flott. Skemmtileg saga af strákum sem slysuðust til að finna hellinn um miðja síðustu öld.
Við Eygló, Lukka og Eggert fórum að skoða ekta gotlenskt sauðfé, aðrir voru merkilega áhugalausir. Þar voru gæfir og sætir hrútar. Þeir höfðu ekki mikið að borða. Ég leitaði að grasi en fann ekkert. Eggert datt þá í hug að gefa þeim grein með laufblöðum. Þeir virtust hrifnir þannig að ég ákvað að leyfa þeim að borða lauf af tréi sem var þarna. Ég beygði það til þeirra og þeir átu allt af því (ég hef ekki áhyggjur af trjáeyðingu í Svíþjóð). Þegar laufið var búið urðu hrútarnir æstir og einn þeirra notaði hornin til að rífa girðinguna. Við ákváðum að hlaupa á brott áður en þeir kæmust út.
Næst var farið að skemmtigarði sem var með styttur af teiknimyndasöguhetjum. Það var ekki nógu spennandi til að réttlæta það að kaupa miða. Við vorum orðin svöng og fórum á næsta veitingastað sem við fundum. Það var ekta gotlenskur villta vesturs staður sem kallaðist Mix Ranch. Hugsanlega tilvísun í Tom Mix. Þetta voru bestu hamborgarar sem ég hef fengið í Gotlandi en það segir nú mest um þá hamborgara sem ég hef fengið annars staðar. Eggert fékk pönnukökur þó hann hefði að eigin áliti beðið um hamborgara. Sænskan hans aðeins að klikka.
Úti við var skemmtigarður í villta vesturs stíl. Ekki mjög glæsilegur. Ég íhugaði að prufa vélnautið en bjóst við að fá hnykk á bakið sem ég vildi ekki. Við Lukka tókum lagið og dönsuðum fyrir fólk. Það eru til upptökur. Við tókum Karate Kid spark fram af sviðinu og á upptökunni sést síminn minn hoppa úr hulstri sínu. Ég tók eftir því þegar í bílinn var komið og fann hann sem betur fer.
Næst var ferðinni heitið til Bunge að skoða safnið þar. Á leiðinni var mikið sungið og trallað. Þessi ferð hefur orðið til þess að ég hef fengið mikla útrás fyrir hópsöngsáráttu mína sem er annars mjög bæld. Mikið til af upptökum. Safnið í Bunge var bæði skemmtilegt og leiðinlegt. Illa skipulagt en margt skemmtilegt. Einhverjir Gotlandssteinar til sýnis en væntanlega bara afsteypur þó öðru sé haldið fram af safnafólki.
Eftir þetta drifum við okkur í átt að besta kaffihúsi Gotlands sem okkur skyldist að væri í Katthamarsvik. Á leiðinni sváfu flestallir. Sjálfur vaknaði ég nokkrum sinnum við eigin hrotur. Það gerist oft þegar ég sofna í ákveðinni tegund stóla sem eru til dæmis í lestum og þarna. Höfuðið liggur aftur og munnurinn galopinn. Ég hrýt nógu hátt til að vekja mig sjálfan. Það gerist ekki nema við svona aðstæður.
Í Katthamarsvik leituðum við mjög að besta kaffihúsinu. Það átti að vera í svona sjötta áratugar stíl með glymskratta og kúluspili. Við fundum slíkt kaffihús en það var svo óendanlega krappí að við borðuðum ekki þar. Við leituðum síðan að einhverju góðu kaffihúsi um allt Gotland en ekkert fannst. Við sáum hins vegar fíl. Við leituðum að lambasafarístað sem átt að vera með veitingaþjónustu en allt var það til einskis.
Við enduðum á því að keyra inn í Visby aftur og borðuðum á pizzustað utan við miðbæinn sem heitir Tigris. Hálfmáninn minn var of saltur en ætur. Matur annarra var álíka óspennandi.
Eftir að við komum heim ákváðum við að fara út að fá okkur ekta Visby ís í síðasta sinn. Við fórum enn og aftur í Visby Glass sem er besta ísbúð Svíþjóðar. Síðan fórum við á Stóra Torgið og sáum hátíðinni slitið. Sáum síðan flottan eldgleypi. Best var að sjá logann svona upp við munn gleypisins. En logarnir voru líka stórir og flottir.
Núna erum við í fangelsinu. Hinir eru að spila en ég að skrifa ferðasögu. Ferjan fer hálffjögur og við förum héðan um tvöleytið.
Ekkert sofið fyrren annað kvöld.
Hver vill sigla í vindi?
Ferjan SF 1500 á leið frá Visby til meginlands Svíþjóðar þann 14. ágúst 2006 klukkan 04:32 Við Lukka reyndum að spila smá en það gekk ekki. Ég var of steiktur til að ráða við Ólsen Ólsen. Ég laug annars í lok síðustu færslu þegar ég sagði að ég myndi ekkert sofa fyrr en annað kvöld. Áður en við fórum af stað frá fangelsinu þá lagði ég mig í hálftíma á morgunverðarborði. Ég hraut víst illilega. Fólk var að tala um þrumuveður og ég hélt að það væri eitthvað skot á mig út af hrotunum en síðan heyrði ég sjálfur í veðrinu. Ég sá síðan eldingu þegar við vorum að keyra að ferjunni. Ég hef aldrei áður séð svoleiðis. Var reyndar ekki mjög impressív, bara ljósblossi.
Við notuðum VW til að ferja fólk og töskur yfir í ferjuna. Það var mjög heppilegt þar sem rigningin var frekar leiðinleg. Þegar við vorum komin í tjékkin þá leit þetta svoltið út einsog að við hefðum slysast inn í geymslu fyrir aukaleikara úr Lord of the Rings. Fólk af hátíðinni ennþá í búningunum út um allt. Margir sofandi.
Við fengum ágætan stað saman, fyrir utan Rósu, Jónbjörn, Sigrúnu S. og Adda sem eru sér. Hérna eru núna allir sofandi nema ég og Hlynur en hann er lagstur til svefns. Ég svaf reyndar smá áðan. Maður finnur mikið meira fyrir skipinu núna en á leiðinni en þó ekkert óhóflega. Ég er ekki aðdáandi sjóferða.
Hver getur flogið án flugvélar?
Klukkan 12:59 að sænskum tíma, þann 14. ágúst 2006, herbergi 36 í Rest and Fly á Arlanda flugvelli Flugið okkar átti að fara klukkan 13:30 en er frestað til sex. Tólf af þrettán úr hópnum hafa leigt sér herbergi hérna til að leggja sig og að fara í sturtu. Við verðum hér til hálffimm. Smá afslapp.
Sjóferðin var ekki mjög atburðarík, aðallega leiðinleg. Ég svaf aðeins en þó minna en aðrir. Jón Kr. svaf þó minnst. Ég svaf stóran hluta rútuferðarinnar út á Arlanda flugvöll. Á vellinum tókum við spretti fram og til baka en enduðum á veitingastað. Við Eygló og Lukka borðuðum saman á Alfredos á meðan flestir hinna borðuðu á MacDonalds. Ég fékk alveg yndislegt kebab.
Síðan komumst við að því að fluginu væri frestað. Ég afboðaði mig á Stúdentaráðsfund sem verður klukkan 17:30 á eftir. Leiðinlegt að gera það með stuttum fyrirvara en ekkert annað hægt. Reyndar virðist Arndís ekki hafa fengið skilaboðin miðað við að ég var að fá sms frá henni um dagskrá fundarins. Bögg.
Núna erum við búin í sturtu og farin að leggja okkur.
Góða nótt.
Hinar mörgu hliðar Arlanda
Klukkan 21:02 að íslenskum tíma þann 14. ágúst yfir Atlantshafinu í Boing MD 90 vél Iceland Express, veit ekki hvað hún heitir.
Við vöknuðum um fjögurleytið við hringingu frá Sigrúnu Ísleifs sem var að pæla hvar við værum, vissi ekki að við værum tveimum herbergjum frá. Við fórum á fætur, spjölluðum við liðið og fengum upplýsingar. Samkvæmt þeim átti vélin ekki að fara fyrren í kvöld. Ég ákvað samt að rölta yfir að afgreiðsluborði IE og spurði þar um upplýsingar. Þá var klukkan að verða fimm og mér var sagt að við ættum að fara í loftið klukkan sex og þyrftum að tjékka okkur inn fyrir 17:30. Ég gekk hratt alla leið til baka (við erum að tala um töluverðan spotta hér, ég gekk langar leiðir um flugstöðina í dag) til að segja fólki frá þessu. Allir drifu sig og við vorum komin á góðum tíma.
Þarna inni beið okkar 100 sænskra krónu inneign á Robert’s kaffihúsinu. Ég keypti mér tvær kók og ciabatta með skinku og osti fyrir það. Flestir fengu sér svoleiðis. Reyndar fengu Eygló og Sigrún Ísleifs sér kökusneið líka. Þegar klukkan fór að nálgast 17:30 þá sáum við að það vantaði eitthvað við hliðið okkar, flugvélina. Það var semsagt bara rugl í afgreiðslunni að við þyrftum að drífa okkur því vélin var ekki komin. Ég var svoltið pirraður þar sem ég hafði drifið fólkið af stað. En svona er þetta með flugfélög, maður veit ekki hvaða lygi maður á að trúa.
Við eyddum um 11 tímum á Arlanda. Við ákváðum að mæta snemma af ótta við aukna öryggisgæslu en urðum ekki vör við neitt slíkt. Við fengum meiraðsegja að hafa vökva með um borð.
Við drápum tíman fyrst með því að skoða verslanirnar. Það var mjög óspennandi. Þegar ljóst var að vélin færi ekki af stað klukkan 18:00 þá keypti ég mér American Splendour og Field of dreams á dvd (tvær fyrir ein tilboð) til að horfa á. Því miður var hljóðið of lágt til að þola flugstöðvarniðinn. Þá kom sér vel að Eygló hafði keypt sér ferðaútgáfu af Catan. Við Eygló, Eggert og Sigrún Ísleifs spiluðum í um einn og hálfan tíma meðan við biðum frétta. Í kringum okkur voru Hvanneyrarbændaskólanemar og eitthvað stúlknakörfuboltalandslið að spila Partí & co. Spilið okkar kláraðist ekki þar sem flugvélin mætti á svæðið.
Við komum okkur um borð og erum núna búin að fljúga í um tvo tíma. Sirka 40 mínútur til Keflavíkur. Dáltil ókyrrð er í loftinu meðan ég skrifa þetta og ég held tölvunni niður með lófunum. Áðan lásu Eggert og Eygló ferðasöguna í heild sinni og fannst mjög gaman að komast að því hvað þau hefðu verið að gera. Eggert fannst sérstaklega spennandi að rifja upp hvað hann hafði verið að borða hér og þar um Svíþjóð.
Ég ætla að ganga frá fartölvunni núna og vona að við hröpum ekki.
Komin heim
Bakkarnir þann 14. ágúst 2006, klukkan 23:48 að íslenskum tíma Við erum komin heim. Ókyrrðin var töluverð en hins vegar var það ekki það versta. Ég var kominn með hellur og síðan þá byrjaði ég að fá verk í eða við augað. Það var mjög sárt og mér fannst einsog það væru æðar að springa í auganu. Sem betur fer var þetta ekki alvarlegt. Væntanlega er þetta tengt því að ég er stíflaður. Nú veit ég hvernig augnahellur eru.
Ég dreif mig úr vélinni. Við versluðum dáltið í Fríhöfninni og náðum í töskurnar okkur. Við tókum líka töskur hinna af færibandinu enda erum við farin að þekkja þær. Bæði í Fríhöfninni og hjá töskunum þá var fólk að reyna að tala við mig en ég heyrði bara helminginn. Bókstaflega helminginn. Hellurnar voru semsé að trufla heyrnina. Tollvörður kíkti snöggt í innkaupapoka okkar. Ég hef aldrei áður lent í svoleiðis. Renn yfirleitt beint í gegn.
Mamma Eggerts skutlaði okkur heim. Bílinn var alveg troðinn. Við skemmtum henni með sögum úr ferðinni. Sögðum henni meiraðsegja frá aðdáanda Eggerts.
En gott að vera komin heim.
Trappa mig niður núna.