Mýrin

Ég hef ekki lesið neitt eftir Arnald Indriðason. Né reyndar neitt af þessum íslensku sakamálasögum sem fyllt hafa metsölulistana síðustu ár.  Þannig að ég fór með frekar opnum huga á Mýrina með Þjóðbrók í kvöld.  Það þarf vissulega að taka fram að það er alltof dýrt í bíó, sérstaklega íslenskar myndir.

En já, myndin sjálf.  Hún var bara góð.  Minnti mig svona einhvern veginn á að horfa á sakmálamyndir á RÚV þegar ég var yngri en ég er nú.  Stemmingin var svoleiðis.  Jafnvel að þetta minni mann líka á Frost af Stöð 2.  Leikurinn var bara fínn fyrir utan smá ýkjukennda takta hjá sumum.  Ekkert sem fór í taugarnar á manni.  Eitt atriði í plottinu pirraði mig en Eygló sagði að það hefði verið betur skýrt í bókinni.  Fyrirgefanlegt en hefði átt að ganga betur frá svona lausum endum.

Ég hef lesið nokkra dóma um myndina og í þeim kom fram að það væri augljóst frá upphafi hver morðinginn væri.  Ég get ekki alveg tekið undir það. Mér þótti alltaf eins og að nokkrar lausnir kæmu til greina.  Ætli menn sem hafa lesið bókina séu hér að skoða myndina of mikið út frá því sjónarhorni? Fín mynd svosem en maður ætti ekki að þurfa að borga 1200 krónur fyrir bíómiða.