Ég þjáist af RSS valkvíða. Eftir að Mikki vaknaði og BloggGátin fór af stað þá hef ég verið að reyna að ákveða hvort ég mun nota samhliða eða í staðinn fyrir Google Reader. Reyndar var eitthvað vandamál fyrst hjá mér með BloggGáttina en hún fór að virka um leið og ég bað um aðstoð. Ég er búinn að búa til lista en vandamálið er að það vantar fjölmarga inn á hann. Það er hins vegar mjög hentugt að geta bara fleygt honum bara inn í hliðarrein af Firefox, ég vissi ekki að það væri hægt en það segir eiginlega mest um mig.
Með Mikka þá er svipað vandamál, fólk hefur bæst við og fært sig frá því að hann bilaði. Ég þarf því að fara kerfisbundið í gegnum listann og bæta við fólki þar líka ef ég ætla að nota hann. Best væri augljóslega að hafa fólk á báðum stöðum en ég nenni eiginlega ekki að vera endalaust að sjá um skráningar fyrir fólk. Ég reyndar sé um þetta fyrir Truflunarfólk, verð að passa að það sé rétt skráð.
Best væri samt að fólk myndi sjá um það sjálft. Það er ekki mikið mál, hér er skráning á MikkaVef og hér efst er skráning á BloggGáttina. Passið fyrst að sjá hvort þið séuð nokkuð nú þegar skráð. Það vantar held ég samt á báðum stöðum svona einfalt “athugið hvort þegar sé búið að skrá blogg” þar sem hægt væri að líma inn url og sjá fljótt hvort það hafi þegar verið skráð. Þetta sparar vinnu ef maður er að setja inn mörg blogg í einu.
Að sinni giska ég reyndar að ég prufi BloggGáttina. Það er reyndar hálf óþolandi að hafa þessa stiku þarna efst en ég hef eina hugmynd fyrir Gulla og Markús. Setjið einhvers konar einkunnargjöf þarna og búið til heitt lista á BloggGáttina. Mogginn reyndi stjörnugjöf en það mislukkaðist af því að þeir tróðu henni á síður fólks óumbeðið. Þeir gerðu líka þau mistök að leyfa öllu að sjá hvaða einkunn bloggin voru að fá. Það er óþarfi. Það þarf bara að búa til lista yfir blogg sem eru að fá háa einkunn.
Með útfærslu á þessu er nauðsynlegt að ákveða nokkur atriði. Númer 1 er að spyrja hvort að það eigi að neyða alla sem greiða atkvæði til að vera innskráða. Það hefur vissulega sína kosti en einnig mætti fara þá leið að skrá IP-tölur til að passa að fólk sé ekki að spamma þetta með atkvæðum. Annað sem þyrfti að ákveða er formið á einkunnagjöfinni. Stjörnur myndu virka ágætlega en síðan væri bara líka hægt að hafa svona “mæli með þessari bloggfærslu” hnapp. Það er jafnvel að það myndi virka betur og það væri allavega auðveldara í uppsetningu. Síðan þarf að pæla í því hvernig atkvæði úreldast eða hve lengi hver færsla fær að vera á toppnum. Það væri svosem hægt að skipta þessu eftir dögum “Heitast í dag, heitast í gær, heitast í fyrradag”.
Augljóslega myndu einhverjir reyna að misnota þetta kerfi en ég held að til lengri tíma þá sé það kannski ekki vandamál. Fólk myndi augljóslega hætta að heimsækja leiðinlega bloggara sem lenda oft inn á topplistanum og þá myndu þeir væntanlega hætta að svindla á kerfinu því það borgar sig ekki í auknum heimsóknatölum.
Annað í þessu væri náttúrulega að setja upp sér lista fyrir vefrit. Mér sýnist að núna séu þau ekki aðgreind frá bloggunum en það þyrfti að gerast. Þetta væri því fyrirtaksleið til að benda á áhugaverðar vefritagreinar líka.
Jæja, ég fór óvart í þessa hugmyndavinnu. Ég tek fram að allir sem hleypa öllum bloggum og vefritum á veitur sínar mega nýta þessar hugmyndir þó í grunninn séu þær hugsaðar fyrir BloggGáttina. Hins vegar geri ég þá kröfu um að fá borgað fyrir þetta ef einhver fyrirtæki hirða þessa hugmynd. Óháðum aðilum er hins vegar frjálst að nota hana án greiðslu.