Seinn Strætó og seinasti Strætó

Almennt mæti ég dálítið fyrir auglýstan tíma á allt.  Í dag var ég hins vegar á leið á fyrirlestur og Strætó var seinn, reyndar er það ónákvæmt.  Annar vagninn sem kom til greina að taka mætti væntanlega aðeins á undan en hinn var tíu mínútum of seinn.  Fyrirlesturinn var í Odda og var auglýstur 17:15 en ég fór út við FS 17:12.  Ég gekk hratt en hljóp ekki og var kominn í Odda 17:16 og hugsaði með mér að þetta myndi duga.  En svo var ekki.  Fyrirlesturinn hefur greinilega byrjað á mínútunni og ég þurfti að lauma mér inn.  Áhugaverður var hann. Valkyrjur, hórur og heilagar meyjar.

Eftir fyrirlesturinn hafði ég einn og hálfan klukkutíma til að drepa og ég endaði í Nexus.  Þar keypti ég mér eina Dirk Gently bók.  Ég tók bókina með mér yfir á Devitos þar sem ég snarlaði fína pizzu sem brenndi tunguna mína örlítið.  Þaðan rölti ég upp í Friðarhús.

Það verður að segjast að það er til fyrirmyndar af UVG að sýna mynd sem gagnrýnir harkalega málstað flokksins.  The Great Global Warming Swindle.  Eftir myndina þá tók efnafræðingurinn knái, hann Erlendur Jónsson, og skaut flestar fullyrðingar myndarinnar í kaf.  Mjög flottur.  Það hefði nú verið gaman ef einhverjir af frjálshyggjuguttunum sem aðhyllast þessar kenningar hefðu séð sér fært að mæta en ég varð ekki var við neinn slíkan á staðnum.

Eftir á var spjallað í Friðarhúsinu þar til að Stebbi Páls rak okkur út.  Við enduðum á reykfylltum bar – ó reykingabann, hvenær kemur þú?- og ég endaði með því að taka síðasta mögulega Strætó heim.  Gaman að hitta fólk, sérstaklega Jakob reyndar, of langt síðan ég hef séð hann.

Mig grunar að ég hafi hrætt grey stelpu sem fór inn í Strætó með mér á Lækjartorgi.  Við fórum nefnilega líka út á sömu stoppistöð og ég held að hún hafi ekki séð að ég ýtti á takkann á undan henni.  Hún var síðan aðeins á undan mér alla leiðina að blokkinni minni sem þýðir að þetta leit þannig út að ég væri að elta hana.  Ég gekk reyndar hægar en venjulega til að hún kæmist aðeins lengra á undan mér.  Mig grunar að hún hafi verið mjög fegin þegar ég beygði inn í átt að innganginum mínum.