Meiri stjórnmálaskýringar

Í Kastljósinu í kvöld þá sást ágætlega hvernig spuninn virkar þessa daganna. Spuninn var á þessa leið: Það að VG stingi upp á minnihlutastjórn með Samfylkingu þýðir í raun að VG vill mynda stjórn með Sjálfsstæðisflokknum. Nú gæti vel verið að Guðni trúi þessu í alvörunni en hann var nú ekkert sérstaklega sannfærandi.  Það sást vel að hér var spuni í gangi. VG er ekki að útiloka D+V stjórn, það er satt. Mig grunar hins vegar að ástæðan fyrir því að þetta er einfaldlega sú að VG vill geta komið í veg fyrir D+S stjórn ef slíkt kæmi upp.

Tal um að viðræðurnar núna milli stjórnarflokkana séu til þess að Framsókn geti haldið reisn er fáránlegt.  Það er engin reisn yfir þessu. Ég sagði hér að neðan að tvennt heldur viðræðunum gangandi.  Geir vill láta líta fyrir að hann stjórni spilinu og Jón langar að framlengja pólítískt líf sitt.  Ég sé þetta nú ekki ganga upp. Stjórnin situr allavega ekki lengi.

Nú segja margir að þjóðin hafi hafnað Framsókn.  Með fullri virðingu þá tel ég það bara ekki rétta túlkun.  X% af þjóðinni hafnar alltaf öllum nema einum (eða bara yfirhöfuð öllum í tilfelli þeirra sem sitja heima eða skila auðu) flokk. Þeir sem höfnuðu Framsókn voru þeir sem höfðu áður kosið flokkinn, þá sérstaklega 2003. Það sem þeir segja fyrst og fremst er að þeir séu ekki glaðir með það hvernig flokkurinn stóð að sínum málum á þessu kjörtímabili (og jafnvel lengur). Þegar ráðherrar Framsóknar segjast hafa staðið sig vel og að stjórnin sé góð þá eru þeir ekki að hlusta á þennan hóp sem yfirgaf þá. Með því að slíta stjórninni núna þá væru þeir að taka tillit til þessa hóps. Þetta væri líka einfaldlega það snjalla í stöðunni.  Grasrótin í flokknum skilur þetta en eitthvað eru skilaboðin lengi að komast til forsvarsmanna hans.

Fyrir þá sem vilja að Framsókn þurrkist endanlega út er náttúrulega besti kosturinn í stöðunni sá að þeir haldi áfram núverandi stjórnarsamstarfi.  Næstbesti kostur er sá að Geir sparki Jóni út þrátt fyrir að sá síðarnefndi reyni allt til að framlengja stjórnina.  Kannski að einhver af þeim sem á sér draum um formann sé með plott í gangi um að steypa Jóni og stjórninni um leið.  Það verður óánægja innan Framsóknar ef stjórnin heldur áfram.  Slíka óánægju væri væntanlega hægt að nýta í valdabrölti.  Jón væri gerður að blóraböggli fyrir því að stjórnarsamstarfinu var ekki slitið.  Einhver sem hefur viðrað efasemdir um áframhaldandi stjórn (innan flokksins alla vega) gæti boðið sig fram til formanns og boðað breyttar áherslur.  Sá kæmi fram sem hetja í augum þeirra sem ekki vildu stjórn áfram og þeirra sem hættu að kjósa flokkinn vegna samstarfsins við Sjálfsstæðisflokkinn.  “Loksins einhver sem þorir að standa í hárinu á íhaldinu!” Þetta plott gæti líka virkað af stjórnin er ekki framlengd.  Þá verður hægt að kenna Jóni algjörlega um að hafa skriðið fyrir Geir.