Endurgreitt í flutningasjóðinn mikla

Dagurinn fór í að henda gestinum út. Eva var búin að vera hér í viku og við höfðum fengið nóg af henni. Reyndar var íbúðin hennar og Hildar loksins laus og við vorum að hjálpa þeim að flytja.

Að hjálpa Evu að flytja var auðvelt, ein ferð með þetta litla dót sem hún á. Síðan fórum við Eva og keyptum sjónvarp handa henni. Ég misnotaði afsláttinn minn og hún fékk 20″ sjónvarp á rétt rúmar fimmtán þúsund krónur.

Að hjálpa Hildi var flóknara. Smádrasl, smádrasl, föt, föt, föt, föt, fullt af fötum og meira smádrasl. Annars var það ekki mikið drasl enda flytur enginn í Micru með stóra búslóð. Fjórar ferðir í allt.

Fórum síðan á Eldsmiðjuna sem er í næstu götu við Hildi og Evu (sömu götu og Nils). Mér finnst einsog starfsandinn þar á bæ sé ekki alveg frábær. Undarlegt fyrirkomulag hjá þeim að hafa reyklaust á efstu hæð því reykurinn stígur upp (einsog margir vita) þannig að maður finnur fnykinn, þarf líka að ganga í gegnum reykingasvæðin. Maturinn er samt góður.

Ég stillti síðan sjónvarpið og videoið fyrir þær en í bili verða þær að horfa á það inn í eldhúsi því það eru undarlegar staðsetningar á sjónvarpsinntakinu í stofunni miðað við næsta rafmagnstengil.