Við fórum norður á fimmtudag og komum aftur í gær. Stutt ferð sem var meðal annars farin til að ná einu viðtali fyrir rannsóknina mína. Við náðum líka skemmtilegu spjalli við afa. Það var voðalega indælt veður á Akureyri þannig að við notuðum tækifærið til að fara í sund og rölta um Lystigarðinn.
Það er merkilegt hve ömurlegt fólk er í umferðinni. Mér er svo sem sama um að fólk taki framúr mér en á fimmtudaginn gerði það einn sem var með þrjá bíla á aftan í vagni. Þann menn hefði þurft að svipta á staðnum og gera bílinn upptækan.
Undarlegast var þó í gær þegar ég var að keyra suður. Við vorum búin að vera lengi á eftir tveimur stórum trukkum á Holtavörðuheiðinni. Þeir voru bara að keyra á sama hraða og ég þannig að ég sá enga ástæðu til að fara framúr þeim, hélt mig bara vel fyrir aftan þá. En þá koma tveir bílar og taka framúr mér og síðan trukkunum. Aftari trukkurinn hægði ferðina til að hleypa þeim framhjá. Þetta varð til þess að ég var allt í einu kominn rétt fyrir aftan hann. Ég gaf ekkert merki um að ég vildi komast fyrir framan hann en hann gaf mér merki um að ég vildi það. Ég gerði ekkert enda vissi ég að ég myndi þá einfaldlega enda á milli trukkanna sem voru augljóslega í samfloti. Bílstjórinn var hins vegar greinilega búinn að ákveða að hleypa mér framhjá og hægði ferðina alltaf meira og meira. Þegar hann var kominn niður í sextíu þá ákvað ég að taka bara framúr þó ég hefði lítinn áhuga á því. Þegar ég var kominn framhjá hélt ég bara áfram að keyra á þeim hraða sem ég hafði verið á áður sem var einmitt sami hraði og trukkarnir. Eftir smá tíma þá tók trukkurinn framúr mér, ekki til að komast hraðar en ég heldur til þess að vera nær fremri trukknum. Hann flautaði síðan á mig þegar hann var að fara framhjá mér, greinilega fúll við mig þó ég hefði í raun ekkert til saka unnið.
Hvalfjarðargöngin eru alltaf óendanlega pirrandi. Ég held mig á löglegum hraða en það eru alltaf einhverjir sem ekki sætta sig við það og keyra í rassgatinu á manni. Áttar þetta fólk sig ekki á að það væri meiri háttar mál ef árekstur yrði þarna inni? Er of erfitt að keyra á 70 þessa örstuttu vegalengd? Ef þið viljið fara hraðar getið keyrt fjörðinn.
Það var dálítið um vegaframkvæmdir á leiðinni en þar sem ég keyrði að kvöldi og á laugardegi þá var ekki verið að vinna á öllum stöðunum. Þrátt fyrir það voru oft öll merki þannig að maður gat ekki séð annað en það væru einhverjir beinlínis að vinna á veginum og maður hægði á ferðinni eftir því. Síðan var það þannig að aðstæður voru oft bara í besta lagi og engir að vinna. Ég held að það myndi auka virðingu fyrir öllum þessum vegavinnumerkjum ef þeir myndu skella svörum ruslapokum yfir þau þegar þau eru óþörf.