Þegar ég slysast inn á síðuna hans Friðbjörns Orra þá get ég búist við rugli. Í nýjustu færslunni sinni er hann að tala um eyðingu Ósonlagsins.
Ekkert breyttist þó og notkun fólks á öllum hlutum sínum hélt óbreytt áfram.
Hann birtir líka graf sem sýnir stöðu ósonlagsins yfir Reykjavík frá árinu 1990.
Það er margt sem er augljóslega vitlaust hjá honum.
Hið fyrsta er að útstreymi klórflúorkolefna beinlínis hrundi í lok níunda áratugarins og byrjun þess tíunda, allavega á Íslandi.
Í öðru lagi þá myndi línuritið líklega líta allt öðruvísi út ef það væri aftur til 1957 þegar mælingar hófust á Íslandi.
Í þriðja lagi er fáránlegt að nota tölur sem eru bundnar við Reykjavík til að alhæfa um stöðu ósonlagsins í heild.
Ég þykist ekki hafa vit á þessum málum en mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé bara eins og með hlýnun jarðar, það er nær enginn ágreiningur meðal vísindamanna sem eru teknir alvarlega í þessum málum.
Annars þá væri gaman ef einhver sem þekkir betur til þessara mála gæti kommentað og leiðrétt mig ef ég er á villigötum. Sjálfur hefði ég kommentað beint á síðu Friðbjörns Orra en hann þorir ekki að leyfa komment þar. Hann er líka svo hræddur við að fólk sjái villurnar í málflutningi sínum að almennt vísar hann hvorki á gagnrýnendur sína né vitnar orðrétt í þá heldur „umorðar“ hann gagnrýni þeirra á þann hátt að auðveldara sé að svara henni.
