Jæja, dagurinn varð lengri en ég ætlaði. Eftir fyrirlesturinn kláraði ég að prenta út viðtölin mín frá í sumar. Ég hafði frestað því fulllengi. Síðan fór ég með Eygló út í Þjóðmenningarhús á smá spjallfund með Maryam. Það var áhugavert.
Við rifjuðum upp að það kom fyrst til tals að fá hana til landsins í kringum ráðstefnuna í fyrra. Við ákváðum að bíða með þetta enda væru allar líkur á því að hún félli í skuggann af Dawkins (merkilegt nokk þá eru það fjölmiðlamenn sem falla svona flatir fyrir honum, ekki trúleysingjar) og að hún verðskuldaði meiri athygli. Þetta gekk líka svo vel að hún hefur fengið álíka athygli og Dawkins fékk, það er bara vonandi að umræðurnar verði líka einhverjar í kjölfarið.
Maryam sagði líka flatt út nokkuð sem hefði verið gott fyrir ýmsa að heyra. Vinstrið hefur brugðist í baráttunni við pólitískan arm Íslam. Einfaldlega. Í gær sagði hún líka að kvenréttindafélög á Vesturlöndum hefði brugðist konum sem búa við kúgun Íslam.
En já, við fórum síðan að borða á American Style og fórum á fund hjá Þjóðbrók. Fengum dauðakindarköku. Aðalástæðan fyrir því að mæta var aðallega að hitta fólkið áður en ég fer út.
Tókum strætó heim, hittum Jón Kr. á síðasta sprettinum.