Það er afar undarlegt að vera í Aðferðafræði (sem ég get ekki almennilega útskýrt hvað er) tímum í stóra salnum í Háskólabíó með nokkur hundruð manns. Kennararnir eru í móðu einhvers staðar þarna frammi og ég myndi ekki þekkja þá úti á götu, Nils sagði mér að sú sem kenndi tölfræðihlutann væri hot en ég hef ekki ennþá sannreynt það. Ég veit að það er fullt af fólki með mér í þessum tímum sem ég þekki en ég rekst ekki á nema nokkra, Billi fyrrverandi bekkjarfélagi situr rétt hjá mér yfirleitt.
Að sjá hvað fólk er að dunda sér á meðan það á að læra er skemmtilegt. Í síðasta tíma sátu tveir fyrir framan mig með fartölvur, annar var að taka inn efni á DC++ og hinn á Kazaa. Reyndar tók Kazaa náunginn upp á því að skoða blogg í tímanum, sá að hann fór meðal annars að skoða Stefán Einar. Framar í salnum sat einhver með krakkann sinn við hlið sér. Krakkinn var með fartölvu í fanginu og var að horfa á einhverja teiknimynd.
Það er undarlegt þegar nemendur spyrja um eitthvað, maður heyrir aldrei spurningarnar nema að kennarinn endurtaki þær en það er oft sem kennarinn sjálfur heyrir ekki spurninguna. Líka er gott að spyrja heimskulegra spurninga og gera sig að fífli fyrir framan mjög stóran hluta félagsvísindadeildar.
Kennarinn átti snilldartakta í síðasta tíma einsog Eygló benti á.
Kennarinn eyddi dágóðum tíma í að útskýra formúlu fyrir meðalfrávik meðaltals. Þegar hún var búin að útskýra þetta allt vel og vandlega sagði hún: “Útkoman er því alltaf núll, svo að formúlan hefur í raun ekkert notagildi”. Algjört brill!!!
Ég klappaði meiraðsegja fyrir þessu.