Astrópíuspilið – dómur eftir eina spilun

Astrópíuspilið fékk ég frá Eygló og við tókum prufuatrennu í kvöld.

Fyrsta sem maður tekur eftir er fjöldi leikmanna. 2-6 spilarar. Það er gott. Í fyrsta lagi er gott að hafa spil sem tveir geta tekið í og einnig að heildarfjöldinn er nokkuð hár. Þar að auki stendur spilarafjöldi ekki á tvennum þannig að þrír og fimm geta spilað. Alltaf óþægilegt þegar verið að velja spil.

Kannski ég hefði átt að segja að kassinn sjálfur sé það fyrsta sem maður tekur eftir en hann er voðalega stór, í raun óþarflega stór. Spilaborðið hefði mátt brjóta einu sinni oftar saman sem hefði sparað mikið pláss. Þar að auki er kassinn sjálfur illa hannaður. Hólfin sem eru ætluð undir spjöld eru virka ekkert sérstaklega vel og þau geta auðveldlega dottið undir.

Leiðbeiningarnar eru ekkert afskaplega skýrar. Fleiri skýringamyndir hefðu hjálpað mikið. Annars þá eru reglurnar frekar einfaldar en ég geri þó ráð fyrir að ég græði á því að þekkja aðeins til klassískra hlutverkjaleikja.

Í grunninn þá ertu að leika hlutverk einnar aðalpersónunnar úr myndinni. Þú getur verið Hildur (eins og ég var), Flóki (Eygló), Playmolas, Pési, Beta eða Kjartan. Hver persóna hefur ákveðna eiginleika en þó er ekki mikill munur á þeim. Þessar hetjur berjast svo við skrýmsli og nota til þess ýmsa hluti og/eða galdra sem þær geta fengið með ýmsu móti í spilinu. Markmiðið er að ná í nisti og fara með aftur á upphafsreit. Heimferðin er fljótlegri en þá bætist við annar þáttur í leikinn þar sem spilarar geta barist við hvern annan.

Ég fór aðeins framúr mér því upphaf leiksins er töluvert öðruvísi en þar verða spilarar að svara spurningum til að komast áfram. Þetta eru „nördaspurningar“ en þó ekkert óhóflega þungar. Þú svarar kannski ekki fjórum af fjórum nema vera nörd en fólk sem er meðvitað um dægurmenningu ætti að geta komist áfram nokkuð fljótt. Þessar spurningar eru líka notaðar á öðrum stöðum á leiknum, til dæmis þegar maður er að reyna að nálgast nistið.

Ég á erfitt með að gefa stjörnur og slíkt en ég get gefið þumal upp. Þegar ég hef spilað nokkrum sinnum í viðbót þá megið þið spyrja mig hvernig þetta virkar með fleiri spilurum, hvernig spilið endist og fleira þess háttar.