Þægileg tala

Ég var að fara yfir námsferil minn og meðaleinkunn mín er 8,5 í meistaranáminu. Það er þægileg tala. Reyndar eru bara 23 einingar inn í tölunni og þær eru á bilinu 8-9,5. Einkunnir fyrir námskeiðin sem ég tók úti koma bara inn sem staðið en byggt á allt öðru einkunnakerfi. Sama gildir um námskeiðið hjá hákarlinum í vor. Síðan skilst mér að ég muni bara fá staðið fyrir meistararitgerðina. Ef svo er þá verður þetta lokaeinkunnin. Alveg ásættanlegt.

Ég bíð reyndar ennþá eftir einkunnum að utan. Ég sendi síðustu ritgerðina út milli jóla og nýárs með pósti þannig að ég er ekki bjartsýnn á að þetta komi alveg strax.

Annars er það að frétta af námsmálum hjá mér að ég er að plægja í gegnum kenningar og rannsóknir annarra sem hafa skrifað á þessu sviði. Stundum krassa ég „ekki satt“ á spássíur bókanna. Það er meira skemmtilegt heldur en þegar fólk er sammála mér. Ég á eftir að taka tvö viðtöl. Ég er að bíða eftir svari varðandi annað en ég ætla að fara að eltast við hitt rétt bráðum. Gaman gaman.