Ég hef ákveðið að halda svona kvikmyndakvöld heima hjá mér, eiginlega stofna kvikmyndaklúbb. Þetta hefur stundum komið upp í umræðunni, sérstaklega vorum við Siggi nálægt því að gera alvöru úr þessu en við höfðum enga raunverulega aðstöðu til að fá fleiri en svona fjóra. Einsog staðan er hérna þá hef ég sæti (misþægileg, ég hef hvíta stólinn fyrir sjálfan mig) fyrir allt að 14 manns (allt að er náttúrulega í mesta lagi). Miðað við hvernig ég hef pælt þetta þá sé ég ekki fyrir mér að Eygló mæti oft.
Ég ætla augljóslega fyrst að hafa samband við vini og vandamenn en mér finnst líka spennandi að fá kannski fólk sem ég þekki úr bloggheimum líka ef það hefur áhuga. Þeir sem hafa áhuga ættu bara að senda mér tölvupóst, oligneisti hjá því ágæta léna http://kaninka.net.
Fyrir utan fjölda sæta þá hef ég mitt 27″ tommu Nokia sjónvarp, mitt Daewoo video án LP, United dvdspilarann og síðast en ekki síst er talvan tengd við sjónvarpið sem eykur möguleikana.
Það sem ég vildi gera á þessum kvöldum er að taka 2-3 myndir fyrir (yfirleitt þrjár og hugsanlega fleiri ef þær eru stuttar, Marxbræðramyndir til dæmis) og þá er eitthvað þema í gangi. Einföld þema einsog að taka eina seríu fyrir, einn leikstjóra eða einn leikara, síðan væri líka hægt að hafa þemun flóknari líka. Nú veit ég að það munu ekki allir nenna að horfa alltaf á allar myndirnar og því er fólki frjálst að fara en helst ekki að koma seint.
Ég var að spá í að byrja á þessu kannski á föstudaginn í næstu viku, byrja kannski klukkan níu um kvöldið þó allt sé óljóst ennþá. Síðan myndi ég vilja gera þetta á svona 3-4 vikna fresti (jafnvel tveggja vikna fresti stundum).
Frekari útfærsla verður líklega gerð með tilliti til áhuga, giska að tölvupóstur verði mest notaður til að koma skilaboðum til áhugasamra.
Stutt í Halloween en það kvöld á alltaf að nota til að glápa á hryllingsmyndir eins og Evil Dead II, The Wickerman, Nosferatu o.þ.h. Angel Heart á hins vegar bara að glápa á á Valentínusardeginum en aðalpersónan átti einmitt afmæli 14. febrúar og tók sig til og skar hjartað úr Charlotte Rampling. Allt voða rómó.