Ég sá þessa fyrirsögnina “68% sammála Magnúsi Þór Hafsteinssyni” á Blogg Gáttinni og kíkti hvað væri verið að tala um. Sá sem bloggaði var Viðar “þeir eru að berja Íslendinga” Guðjohnsen:
Samkvæmt skoðanakönnun bylgjunnar eru 68% aðspurðra sammála röksemdarfærslu Magnar Þór Hafsteinssonar.
Hættan við að vera með svona netkannanir er einmitt að vitgrannt fólk telji að þær séu einhvers virði. Hin einfalda staðreynd er að það er ekkert að marka svona. Það er hrikalega auðvelt að svindla á þeim og úrtakið endurspeglar ekki á nokkurn hátt stærri mynd. Við vitum ekki einu sinni hve margir tóku þátt, þetta gætu alveg eins verið 25 manns. Ekki það að þetta væri nokkurs virði þó þúsund manns hefðu tekið þátt.
Sem dæmi um hve vafasamar svona kannanir eru þá kíkti ég í síðustu viku nokkrum sinnum á könnun á Vísi um launakjör Jakobs Frímanns þar sem lengst af voru um 16% sem voru jákvæðir í garð ofurlauna hans en skyndilega hoppaði það hlutfall upp í ríflega 30% og það var síðan birt athugasemdalaust í Fréttablaðinu.
Fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega eiga náttúrulega ekki að nota netkannanir. Og það er bara hlægilegt þegar menn ætla að halda því fram að svona ruslkannanir séu málflutningi þeirra til framdráttar. En Viðar var svosem brandari fyrir.