Ég fór á Indiana Jones í gær. Númer fjögur. Með Eygló. Ég er haldinn andúð á því að segja fólki of mikið frá myndum þannig að ég læt duga að segja að ég hafi verið sáttur. Mig grunar að eina leiðin til þess að verða sérstaklega óánægður með þetta sem bíóreynslu sé að ímynda sér að fyrstu þrjár hafi verið betri eða, öllu heldur, dýpri og innihaldsmeiri en þær voru í raun. Ég held samt að ég þurfi að sjá þessa aftur til að geta metið hana almennilega og hvernig hún passar inn í fjórleikinn.
Ég fór með hattinn í bíó eftir að hafa verið með hann í vinnu frá því að ég náði í hann. Fékk reyndar fáar athugasemdir miðað við hve kjánalegur mér fannst ég vera. Hvernig gengur fólk annars með hatta á Íslandi í þessum vindi öllum?
Hitti Bessa og Helga í bíó sem ég kynntist á G!Fest um árið. Ég á reyndar ennþá eftir að fullþakka þeim fyrir að taka að sér bakpokann minn þegar ég húkkaði far til Þórshafnar. Bessi var með hatt sem hann vann og svipu líka. Við Eygló sátum annars við hliðina á spjallgjörnu fólki sem þótti allt í lagi að rökræða hvað var að gerast á skjánum upphátt í stað þess að hvíslast eða bara þegja. Þau sem voru við hliðina á Eygló voru svona 9-10 ára gömul en fullorðið fólk hjá mér. Kannski er það helsta gæðamerki myndarinnar að ég lét þetta ekki fara neitt óhóflega í taugarnar á mér.
Ég var fullungur til að fara á Raiders og Temple en á ellefu ára afmælinu mínu (1990 fyrir þá sem vita ekki hvað ég er gamall) fór ég með Heiðari vini mínum á Last Crusade. Það var töluvert sport þar sem myndin var bönnuð innan tólf ára.
Við Eygló horfðum á myndirnar allar til að hita upp fyrir bíóferðina. Það sem kom eiginlega mest á óvart var að Temple of Doom hefur elst betur en ég hélt. Það sem böggaði mig mest við myndirnar voru öll þessi tilgangslausu dráp. Ég er greinilega orðinn viðkvæmur í elli minni.
En hvað um það. Farið endilega í bíó, þið skulið bara ekki ætlast til þess að myndin sé jafn góð og ykkur minnir að Raiders hafi verið fyrst þegar þið sáuð hana ung að árum.