Fyrsti dagur radstefnu

Ég hitti Júlíönu á tilsettum tíma og við röltum yfir til að skrá okkur. Vel gekk að finna staðinn en við vorum víst of snemma. Í staðinn fórum við í morgunverðinn og þar hittum við Tomma. Eftir að hafa fengið brauð með smjöri og farið í skráningu röltum við niður í bæ. Við Júlíana hoppuðum inn í skóbúð og ég keypti mér sandala en hún hælalausa skó (sandalarnir voru reyndar hælalausir líka). Við röltum á sama stað og við borðuðum í gær til að borða almennilega. Ég fékk mér fyllta kartöflu sem var mjög góð.

Tommi vildi augljóslega sjá veggmyndir þannig að við tókum trítl eftir múrnum og leituðum saman að mótmælendahverfinu. Að lokum yfirgaf Júlíana okkur í buxnaleit. Við Tommi fórum fyrst yfir í Bogside og tókum mikið af myndum. Þarna var líka Free-Derry safn sem við skoðuðum. Óhugnalegast var ekki að sjá blóðug föt heldur bréf sem einn mótmælendahópurinn sendi foreldrum eins sem lést á blóðuga sunnudeginum. Mannvonskan lak af því. Eftir það enduðum við á Bogside Inn sem er mjög áberandi kaþólikkapöbb. Það er enginn að gleyma neinu þarna og friðurinn virðist ekki jafn öruggur og maður hélt, sérstaklega þegar maður sér hús með „RIRA rules“ á þakinu í Bogside sem er augljóslega til að sjást af múrnum. RIRA er Real IRA sem stóð fyrir Omagh sprengingunni. Mikið af kroti þarna annars, verð að athuga hvað BRY þýðir.

Við fengum leiðbeiningar til að fara í Fountain sem er mótmælendahverfið og röltum þar um. Kantsteinarnir þar eru í bláum, rauðum og hvítum eins og kantsteinarnir í Bogside eru grænir, hvítir og gulir. Algengt krot þar var „no surrender“. Við röltum framhjá einhverjum mótmælendaklúbbi og þar var náungi sem fannst nóg um myndatökur okkar og var að kalla aðeins á okkur. Við pössuðum að tala íslensku vandlega, bara túristar. Þetta var voðalega fátæklegt hverfi. Mann grunar að mótmælendurnir séu að flytja burt, í úthverfin eða bara til Bretlands. Fáir virðast vilja búa í svona augljósu hverfi þar sem allir eiga að styðja málstaðinn.

Við Tommi fengum okkur smá að narta áður en við fórum í Guildhall þar sem upphafsfyrirlestrarnir voru. Það kom mér voðalega á óvart hvað ég þekkti marga. Ég hitti Carinu sem var þjóðfræðinemum innan handar á Gotlandi, Regina Bendix var augljóslega þarna enda formaður SIEF, síðan var Gary West sem kenndi menningararfinn og síðan Cliona frá Cork. Fyrirlestrarnir þarna voru ágætir, sá síðasti eiginlega bestur. Allir um menningararf.

Ég endaði með að hanga með Skotunum Gary, Neil Martin og Kristni Schram. Það fór síðan stór hópur á krá í nágrenninu. Þar var mikið spjallað, mikið hlegið. Ég sagði fólki frá verkefninu mínu og fannst ég vera frekar lítill miðað við alla í kringum mig. Fæstir með minna en doktorsnám og prófessorstitil. Þeim fannst Svarthöfði fyndinn. Ég móðgaði Neil með því að segja að hann væri líkur Scott Bakula sem honum fannst aðallega slæmt af því að það var svo leiðinlegt þemalag í Enterprise.

Þetta var mjög góður dagur. Og hæhó og jibbíjey, það er kominn 17. júní í tölvunni minni.

1:00 að írskum tíma 17. júní 2008 í Duncreggan stúdentaþorpinu.