Þreyttur er ég. Í morgun vaknaði ég snemma til að koma mér yfir í Nerve centre. Þegar ég kom þangað var ekki enn opið. Heli hin finnska var næst á staðinn og saman komust við allavega inn. Síðan kom umsjónarmaðurinn og eftir töluvert vesen fundum við staðinn sem við áttum að vera á. Það er bögg að hafa verið settur út í rassgat með erindið þar sem enginn nennir að koma. Verst er að þetta var algjörlega óþarft. Það voru alveg fínar stofur á háskólasvæðinu undir þetta en nei. En það komu allavega einhverjir þarna.
Erindin þarna voru mismunandi. Eitt var meira og minna yfirferð á öllu sem gæti talist netþjóðfræði. Heli var með erindi um blogg sem var ágætt en fjallaði mest um aðferðafræði. Umsjónarmaðurinn var með meira og minna óspennandi pælingar sem maður hafði heyrt áður. Ég var að vissu leyti heppinn að því leyti að sá sem átti að vera á eftir mér komst ekki þannig að ég fékk rúman hálftíma í fyrirspurnartíma. Allt um mitt efni. Það var mikill áhugi og ég var mjög ánægður með það. Júlíana sagði að þetta hefði tekist vel. Best var reyndar að hitta sænska konu sem þekkir meira og minna alla fræðimennina í öðrum greinum sem eru á mínu sviði. Hún var ekki með erindi um þetta efni sjálf en hefur skrifað um World of Warcraft.
Það er áhugavert að rifja upp þegar Valdimar sendi okkur Call for papers rétt eftir seinna prófið í Rannsóknunum alræmdu. Mér fannst afar fjarlægt þá að fara á stóra ráðstefnu þar sem allir helstu þjóðfræðingar Evrópu yrðu ásamt mörgum bandarískum. En ég ákvað að láta vaða. Þegar ég sótti um með þetta efni setti ég það bara í svona framhaldsnemapanel en umsjónarmaðurinn á A Life in Bits var einn af aðalumsjónarmönnunum og sá abstraktinn minn og bauð mér að vera með. Reyndar var ég með allt annað en það sem ég sendi upphaflega. Útdrátturinn sem ég sendi var afar óljós en í dag fókusaði ég á smá bút af þessu öllu með töluverðum pælingum um aðferðafræðina.
Jæja, eftir erindið fórum við Júlíana út að borða og ég fór aftur á campusinn. Ég heilsaði aðeins upp á fræðikonu sem ég hafði vitnað aðeins í en við náðum ekkert að spjalla saman af einhverjum ástæðum, smullum ekki. Hálfvandfræðaleg þögn. Það er reyndar skrýtið miðað við að maður er að spjalla við fólk sem starfar við helstu þjóðfræðideildir Evrópu án þess að það sé eitthvað mál (utan við huga minn) að ég sé MA-nemi og þau prófessorar. En síðan fór ég bara og lagði mig í klukkutíma rúman. Einhver bankaði reyndar ítrekað á hurðina mína til að bjóða mér stól. Ég nennti ekki að svara.
Ég rölti síðan í Guildhall til að heyra síðasta fyrirlesturinn. Sá var spes. Hann var Íri að fjalla meðal annars um veggmyndirnar hér á N-Írlandi. Hans niðurstaða var sú að það væri mikil uppgjöf í veggmyndum mótmælenda en svona einhver sigurandi hjá kaþólikkum. Ég er ekki alveg viss um að það sé rangt hjá honum en þetta var mjög skrýtið val á lokafyrirlestri, eiginlega verið að segja að mótmælendur séu tapararnir. Neil (Edinborg) var allavega mjög fúll yfir þessu.
Við sem ekki nenntum að fara að heim til að skipta um föt fyrir kvöldverðinn fórum á Claredons eins og svo oft áður. Eftir töluvert spjall röltum við yfir á hótelið. Okkar hópur endaði út í horni. Einhverjir sem ég þekkti ekki fyrir bættust við. Nú kemur hins vegar að undarlegasta þætti ferðasögunnar. Á mánudaginn hafði John Hume friðarverðlaunahafi Nóbels flutt ræðu á setningunni. Sú var stutt og innihélt margar vísanir í kynslóð okkar sem á hlýddum þó margir þar væru á hans aldri eða eldri. Hann sneri aftur í kvöld.
Við vorum með svona happdrættisnúmer á disknum okkar. Þegar Hume birtist á sviðinu sagði ég í gríni að hann ætti að draga út vinningsnúmerin. Að því var hlegið. Síðan fór John Hume, nóbelsverðlaunahafi, að draga út númer í happdrættinu. Ekki bara tvö eða þrjú heldur svona tuttugu eða þrjátíu. Þetta var stórkostlega undarlegt. Hann minntist líka óspurður á nóbelsverðlaun sín og er því greinilega óhræddur um að flagga þeim. Neil vann styttu af heilögum Kólumkila, hugsanlega úr plasti. Upp kom sú hugmynd að taka mynd af honum með John Hume og styttunni. Kallinn fékkst til þess og Neil fær mjög súra mynd á vegginn sinn. Eftir þetta fór nóbelsverðlaunahafinn upp á svið og söng Danny Boy eftir að hafa farið með einhverja upprunasögu um lagið sem ég er nokkuð viss um að var röng.
Það var minglað áfram og þegar okkur var kastað út úr salnum komum við okkur fyrir í rýminu niðri við móttökuna og spjölluðum áfram. Sekkjapípur voru dregnar fram ásamt öðrum hljóðfærum og mikið spilað. Klukkan langt gengin í fjögur þegar við röltum af stað heim. Nú er ég heima, þreyttur.
klukkan 4:51 í Duncreggan stúdentaþorpinu 20. júní 2008.