Ég sá komment við bloggfærslu Egils Helgasonar þar var haldið fram að ef olíukreppan verði alvarlega þá myndi ekki skipta neinu máli hvort við hefðum almennilegt matvælaframboð innanlands því að „[á]n eldsneytis er enginn landbúnaður.“ Hér virðist gert ráð fyrir að olían muni bara hverfa einn, tveir og þrír. Líklega yrði fyrst tekin upp skömmtun á olíu og þá yrði matvælaframleiðsla efst yfir þá sem fengu olíu. Það er líka þannig að það er ekki öll matvælaframleiðsla algjörlega háð olíu. En við þurfum að nýta rafmagnið betur og þá kannski fyrst og fremst í samgöngukerfinu.
Fyrir nokkrum árum þá var athugað með lestarkerfi innan Reykjavíkur og komist að þeirri niðurstöðu að það svaraði ekki kostnaði. Mig grunar að þær tölur hafi breyst núna enda olíuverð búið að hækka mikið. Ég held að það sé ekki bara nauðsynlegt að skoða möguleikann á einhvers konar lestarsamgöngum innan höfuðborgarsvæðisins heldur líka til að flytja fólk og vörur milli landshorna. Þetta er augljóslega gríðarstórt verkefni en að sama skapi gæti þetta með tíð og tíma sparað ótrúlega háar fjárhæðir. Við erum ekki að tala um fjárfestingar fyrir nokkur ár heldur áratugi og árhundruði jafnvel. En stjórnmálamenn hugsa í fjórum árum í senn og það kemur endalaust í bakið á okkur.
Rafmagnið okkar gæti gert okkur nær óháð olíu í samgöngum á landi en við erum bara ekkert að gera til bjarga okkur sjálf.
*Viðbót: Ég man að ég sá um daginn á Vefþjóðviljanum skammir til Árna Þórs fyrir að endurvekja hugmyndir um lestarsamgöngur í Rvk. Vefþjóðviljamenn voru náttúrulega ekkert að pæla í því að hækkandi olíuverð hefði breytt dæminu.