Röng sjúkdómsgreining?

Hér að neðan er komment sem ég ætlaði að skrifa við færslu hjá Ástu Svavars en mér fannst það orðið svo langt að ég þyrfti eiginlega að hafa þetta sem færslu hjá sjálfum mér. Færslan sem ég er að svara heitir Röng sjúkdómsgreining og þar heldur hún því fram að helsti vandi landsbyggðarinnar sé ekki að þar skorti vinnu. Ég held að það sé ekki beinlínis nauðsynlegt að lesa hennar færslu til að skilja mína en kannski fínt til að sjá hennar rök í öðru samhengi en mínu.


Ég held að þú lítir framhjá nokkuð stórum atriðum varðandi störf fyrir menntað fólk á landsbyggðinni. Það sem er mikilvægt fyrir fólk er ekki bara að það fái störf út á landi sem passar við menntun þeirra heldur að það fái störf í sinni heimabyggð.

Það er mikið stærri vandi fyrir pör sem hafa menntað sig.

Ef um er að ræða par frá sama stað og hefur farið burt að mennta sig þá þarf parið að fá störf sem henta þeim báðum sem er miklu erfiðara.

Ef parið hefur hist í Reykjavík og menntað sig þar þá þarf annað hvort málamiðlun þar sem að flutt er til heimabyggðar annars þeirra og þá þarf hitt að gefa eftir og flytja á alveg nýjan stað eða þá að búa bara áfram í Reykjavík sem er að mörgu leyti auðveldara.

Þú nefnir presta og lækna. Ég held að prestar eigi í raun frekar erfitt með að starfa í sinni heimabyggð. Starfinu fylgir því að þurfa að hafa svona hálfgerðan heilagleika og það er erfitt þegar allir bæjarbúar muna eftir prestinum sem fullum unglingi niðrí bæ. Það er líka svo algengt að prestar giftist öðrum guðfræðingum og það er sjaldan pláss fyrir tvo presta á sama stað út á landi. En síðan er líka málið að það er bara ákaflega lítið að græða á litlum stöðum. Það er svo mikil búbót af skattfríu preststörfunum.

Læknar hafa líka ákveðna þörf fyrir að vera virðingarverðir eins og prestarnir og eiga þá líklega líka erfitt með að snúa aftur í heimabyggð. Námið þeirra er líka það langt að þeir eru líklegri til að hafa fest rætur í Reykjavík á meðan.

Ég myndi því sem að fyrir utan atvinnutækifærin í Reykjavík fyrir menntað fólk sé það því vaninn og ræturnar sem er helsti orsakavaldurinn af því að fólk flytur ekki heim aftur.

Til að sannreyna þetta væri áhugavert að skoða hvort að það landsbyggðafólk sem fer beint út í nám eða er lengi út í námi sé líklegra til að snúa aftur í sína heimabyggð en þeir sem stunda bara nám í Reykjavík.

Varðandi ómenntað fólk þá held ég að þú vanmetir atvinnuhlutann líka mikið. Þegar þrengingar ganga í gegn á landsbyggðinni og fólk missir vinnuna þá er voðalega erfitt að redda sér vinnu fljótt aftur en slíkt er mun auðveldara í Reykjavík. Það að það vanti fólk í störf á Húsavík þýðir ekki að fullt af fólk sem var með atvinnu hafi flutt burt heldur að síðast þegar var erfitt þá hafi margir flutt á brott. Þegar staðan lagast aftur þá er ekki lengur fólk á staðnum til að ganga í störfin aftur. Það hefur slitið ræturnar í heimabænum og plantað sér annars staðar. Það er líka þannig að það þarf bara annar helmingurinn af pari að missa vinnuna til að gera brottflutning fýsilegan.

Til að fá fólkið aftur þarf að gera kostinn svo góðann að því finnist réttlætanlegt að slíta aftur upp ræturnar. Þegar um er að ræða par þá þarf því að hafa traust atvinnutækifæri.

Einn helsti vandi landsbyggðarinnar er líka skortur á kvenfólki. Helstu ástæðurnar eru væntanlega skortur á atvinnutækifærum og það að konur eru líklegri til að mennta sig. Ef konurnar fara þá fylgja karlarnir síðan að lokum. Síðan er það líka þannig að ef vinirnir flytja þá fylgir þú að lokum.

Semsagt. Ég held að sjúkdómsgreiningin sé ekki röng. Hún er kannski einfölduð því það er ekki nóg að fólk fái vinnu heldur þá þarf það að fá vinnu við sitt hæfi og fyrir maka sinn og þá helst í sinni heimabyggð.

Ég held hins vegar að „lækningin“  í formi álvera sé bandvitlaus. Það þarf hægfæra uppbyggingu og stuðning við það atvinnulíf sem er á landsbyggðinni ef það á að viðhalda byggð þar.

Það er rétt að taka fram að ég þekki þetta frekar vel. Sjálfur er ég frá Akureyri og kærastan mín frá Vopnafirði. Ég umgengst fleiri sem hafa flutt frá landsbyggðinni í Reykjavík heldur en Reykvíkinga.