Ég hlustaði á viðtal Sverris Stormsker við Guðna Ágústsson. Ég tek undir með flestum sem hafa hlustað og tjáð sig um þetta. Það er ekki hægt að skilja hver vegna Guðni varð æstur. Sverrir var ekki dónalegur, allavega vægur miðað við sjálfan sig. Það voru greinilega landbúnaðarmálin sem æstu Guðna og væntanlega þá helst það að Sverrir endurtók spurningu sem honum fannst hann ekki hafa fengið svar við. Hann leyfði samt Guðna að koma með eina sérstaklega langa og kjánalega ræðu eins og hann er þekktur fyrir sem hálfgert svar.
Guðna þótti líka leiðinlegt að vera kallaður sveitamaður en þá er hann væntanlega bara að flýja ímynd sem hann hefur sjálfur búið til. Annars var það fyndnast þegar Guðni var að fara og Stormsker sagði eitthvað á þá leið að hann ætti ekki að gera það því annars myndi hann nota það til auglýsa þáttinn.
En þetta minnti mig á bloggfærslu Bjarna Harðarsonar þar sem hann reyndi að afsaka formanninn með vafasömum ráðum. Hann sagði líka:
Stormskerinn ku meðal annars haft yfir ærumeiðandi gaspur um fjarstadda menn eins og Sigurbjörn gamla biskup, Árna Matt og Steingrím J.
Stormsker sagði eitthvað á þá leið að dýralæknir væri ekki hæfasti maðurinn til að standa í hagstjórn landsins. Stormsker sagði vissulega að Sigurbjörn gamli biskup væri hrútleiðinlegur. Hvorugt telst þó ærumeiðandi. Allavega hefur Sigurbjörn sagt margt verra um fólk. Skrýtnast er að halda fram að Stormsker hafi verið að tala illa um Steingrím Joð því það var Guðni sjálfur sem var með skot á hann.
Þegar hann var hvattur til að hlusta sjálfur á þáttinn sagði Bjarni Harðar:
Viðtal Guðna og Sverris er enn ekki komið á netið en þó svo væri myndi ég ekki nenna að eyða tíma mínum í það. Til hvers?
Af því að þú fórst með rangt mál Bjarni, sumir telja slíkt skipta máli. Líklega ekki þú. Þú ert bara að verja flokkinn af því að það er hagur þinn að gera það. Það er ekki merkilegt að vera flokkshóra.
En Guðni er á góðri leið með að stimpla sig út úr pólitík. Það er ljóst. Hann fokkaði upp*.
*Hér er ég að nota orðfæri Guðna sjálfs úr þættinum.