Katrín Jakobsdóttir skrifar grein um hve nútímabörn hafa það allt öðruvísi en börn áður fyrir 15-20 árum. Þetta er einmitt eitthvað sem ég hef oft pælt í. Mér finnst ég einmitt hafa rétt náð í endann á þessum tíma, finnst þetta að vissu leyti hafa verið lok Gamla Íslands. Hvað ég á nákvæmlega við með því er ég ekki viss um því ég upplifði það svosem ekki. Hef á tilfinningunni að það hafi verið frá Seinni Heimsstyrjöldinni til 1985.
Hvers vegna giska ég á þetta tímabil? Seinni Heimstyrjöldin lokar kreppuárunum og er upphafið af tímabilinu þar sem er nær ekkert atvinnuleysi. Seinni tímamörkin eru nú óljósari en 1985 tek ég svona til af því þá fengum við fyrstu tölvuna á heimilið. Kannski að 1991 sé betri endapunktur, þá fer Steingrímur Hermannsson frá völdum og hann er hiklaust Gamla Ísland.
Gamla Ísland hefur ótrúlegan sjarma en vissulega sína galla. Nýja Ísland einkennist af óþarfa stressi, ást á peningum og bara almennt af hraða.