Ég ætla að stökkva á vagninn sem hvetur til kosninga í vor. Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta nauðsynlegt er fyrst og fremst sú að allar forsendur sem fólk hafði fyrir síðustu kosningar eru brostnar. Alþingi hefur ekkert umboð frá þjóðinni við þessar aðstæður. Ég held að við ættum hins vegar ekki að boða til kosninga strax af því að stjórnmálamenn verða að bregðast við ástandinu núna án þess að þurfa að fókusa á kosningar nú þegar. Ríkisstjórnin þarf í samvinnu við stjórnarandstöðu að gera áætlun um hvernig landinu er stjórnað næstu mánuði. Í aðdraganda kosninga verður síðan tímabært að ræða um Evrópusambandsaðild og annað slíkt. Það mætti jafnvel kjósa beint um aðildarviðræður eins og einhverjir hafa lagt til. En við ættum ekki að ákveða neitt í óðagoti á meðan allt er að hrynja.
Í því sambandi verð ég að segja eitt. Undanfarið hef ég séð fullt af reiðum Evrópusambandssinnnum tala um andstæðingana og segja að núverandi ástand hefði ekki orðið ef við værum búin að sækja um aðild. Ég veit ekkert hvort það er rétt en ég veit að það er engum nema Evrópusambandssinnum að kenna að aðild var ekki kosningamál 2003 eða 2007. Ef Samfylkingin (eða jafnvel einhver annar flokkur) hefðu þorað þá hefði ekki verið neitt vandamál að gera aðild að stærsta máli kosninga. Sambandssinnar sem ákváðu að láta önnur mál í forgang verða að eiga það við sig í stað þess að kvarta yfir skoðunum annarra.