Trúarþrugl í Íslandi í dag

Hvernig nær Gunnar í Krossinum sífellt að koma alveg ágætlega út í umræðum í Íslandi í dag? Þáttastjórnendurnir hafa ekki vit á neinu, Jóhanna er ágæt í að vera sæt og kallinn hefur hugsanlega svipað apeal fyrir konur og homma. Núna voru með Gunnari Þjóðkirkjuprestur og faðir sem vildi ekki að Gunnar væri að bjóða skólakrökkum upp á pizzu og kók. Gunnar neitaði að hafa boðið upp á veitingar og sú umræða dó frekar snemma. Engum datt í hug að spyrja hvort það væri réttlætanlegt almennt að skólakerfið væri að skipta sér að trúmálum almennt.

Umræðan varð að vísu aðeins skemmtileg þegar rætt var um hvort réttlætanlegt væri að láta svona ung börn fermast. Þjóðkirkjupresturinn tók varla afstöðu en sagði að þetta væri hefð og að „það hefði verið talað um það“ en hélt því fram að kaþólikkar fermdu þegar börn eru 10 ára (en það er ekki satt, allavega ekki hjá þeim kaþólikkum sem ég hef þekkt) og sagði að það væri allt í lagi að halda svona stóra fermingaveislu. Pabbinn sagði að þetta væri of snemmt enda væri erfitt fyrir börn að neita öllum þessum peningum. Gunnar talaði aðallega eitthvað um að blessa börn en ekki beina fermingu.

Næst fór Gunnar að tala um að það að skíra börn væri óboðlegt og þá var þjóðkirkjupresturinn sár og vældi. Við vitum náttúrulega að Þjóðkirkjan vinnur þannig að hún nær í krakka einsog tóbaksfyrirtækin en aðrir reyna að ná fólki sem hefur farið illa í lífinu.

Síðan er spurningin um hvort það sé boðlegt að bjóða krökkum upp á pizzu og kók til að fá þau í kirkju. Vissulega er það soralegt að boða trú með pizzum en vissulega hefur margt verra verið gert til þess. Enginn getur hins vegar sagt mér að Þjóðkirkjan hafi aldrei notað pizzur eða eitthvað álíka til að lokka krakka að.