Almennileg mótmæli

Eftir að hafa hlustað á einhvern forsvarsmann mótmælanna, væntanlega Hörð Torfason, tala um hættuna að við misstum ferðamenn ef mótmælin væru ekki kurteis var ég glaður að sjá fólk sýna lit. Drengurinn sem klifraði upp á Alþingishúsið og flaggaði Bónusfánanum á mína virðingu alla. Fólkið sem hjálpaði honum að sleppa frá lögreglunni fær líka plús. Það er líka í fínu lagi að grýtu eggjum og tómötum á Alþingishúsið. Þetta er allt innan þeirra marka sem ég tel hæfileg. Ekkert raunverulegt ofbeldi þó einhverjar stimpingar hafi orðið.

Ég tók þó ekki þátt í neinu svona og sá ekki sjálfur. Ég hélt á borða ásamt Frey frænda og komst því ekki svo glatt frá. Konurnar okkar hlupu hins vegar til að fylgjast með ástandinu bak við Alþingishúsið. Við Freyr sáum líka um að passa upp á Freyju á meðan enda feministar í orði og á borði. Mín helstu átök voru við litlu sem vildi ekki alltaf hlýða.

En fyrst og fremst er ég ánægður af því að fólk stóð bara ekki eins og druslur. Það sýndi lit. Við höfum séð það á þessu landi að yfirvöld eru fús að hunsa mótmæli alveg í gegn og það sem þarf er að neyða stjórnvöld til að fylgjast með.

Annars er góð regla að trúa ekki ríkisstjórninni, lögreglunni og Morgunblaðinu. Þá getur maður hugsanlega nálgast sannleikann.