Aldrei hlustað á friðsöm mótmæli

Síðustu ár hafa farið fram ótal friðsöm mótmæli gegn stóriðju, virkjunum, Íraksstríðinu, meðferð á Falun Gong liðum, sambandi ríkis og kirkju, eftirlaunafrumvarpinu og væntanlega fullt af öðrum hlutum sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Allt var þetta hunsað. Eftir að þrenn nær fullkomlega friðsöm mótmæli fóru fram sauð örlítið upp úr á þeim fjórðu. Allt mjög vægt og mig grunar að betri lögreglumenn hefðu getað róað alla. Þeir sem halda að Geir Jón sé góður í svona starfi þekkja væntanlega bara ekki til hans.

Mótmælin eiga eftir að stækka og ríkisstjórnin heldur væntanlega að hægt sé að hunsa þau eins og svo mörg mótmæli hafa áður verið hunsuð. Það á ekki eftir að virka. Þó mér finnist sjálfum að Íraksstríðið sérstaklega hafi verið mikið verra mál þá er staðreyndin að fólk bregst verr við þegar það finnur sjálft fyrir óréttlæti. Fólk mun því ekkert gefast upp og fleiri munu bætast í hópinn. Ríkisstjórnin mun ekki geta hunsað þetta til lengdar ogeftir því sem lengri tími líður mun fólk verða reiðara og því mun oftar sjóða uppúr. Bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur munu þurfa að gjalda fyrir hverja viku sem líður án þess að raunverulega sé hlustað á fólk og því svarað.