Hetjan hann Bjarni

Það er svolítið merkilegt að sjá að fólk er að klappa Bjarna Harðar á bakið fyrir að segja af sér. Það virðist halda að hann hafi haft eitthvað val í málinu. Hér er um að ræða grundvallar misskilning á því hvers vegna íslenskir stjórnmálamenn segja af sér.

Afsagnir eru fátíðar á Íslandi og þær verða aldrei beinlínis af því að almenningur er að krefjast þess. Þær verða af því að stjórnmálaflokkarnir sjá sér hag í að losna við einhvern. Það getur reyndar gerst af því þeir óttast reiði almennings en það er nú sjaldan sem sú staða kemur upp enda gleymir íslenskur almenningur flestu sem hann var hneykslaður á þegar kemur að kosningum.

Ástæðan fyrir að Bjarni sagði af sér er augljóslega af því að hann gat ekki lengur starfað innan síns flokks. Bæði hafði hann væntanlega eyðilagt ákveðið traust þarna og hann varð flokknum til skammar. Það varð þá augljóst að flokkurinn gat ekki þolað að hafa hann innanborðs og því þurfti hann að fara.

Annað sem fólk er að tala um er að þetta hafi verið minniháttar mistök hjá Bjarna og því skrýtið að hann segi af sér. Heldur fólk í alvörunni að þetta hafi verið eitthvað einstakt tilvik óheiðarleika sem þarna kom upp? Að í eina skiptið sem að Bjarni notaði skítatrikk þá hafi það komið í bakið á honum? Það er nú frekar ólíklegt.

Ég hélt einu sinni að Bjarni Harðar væri nú fínn gaur, skrýtinn en fínn. Síðan átti ég samskipti við hann þar sem ég áttaði mig á því að honum er alveg sama þau hann ljúgi blákalt upp í opið geðið á almenningi. Hann komst upp með það þá af því að öllum er sama þó níðst sé á Vantrúarseggjum. Það var enginn í þingflokknum sem hugsaði að þeir gætu ekki haft innanborðs slíkan lygahlaup því þau sjálf voru ekki að tapa á því.

Heldur fólk að hann sé betri við almenning heldur en samflokksmenn sína. Þeir sem mæra hann núna ættu að hugsa sig um. Bjarni er engin hetja, hann er eiginhagsmunaseggur sem vílar sér ekki við að ljúga og nota skítatrikk til að koma sjálfum sér áfram. Við erum ríkari fyrir að hafa misst hann.