Málstaður og aðferðir eru ótengd

Málstaður mótmælenda varð ekkert verri á laugardaginn þó einhverji hafi hent eggjum. Hann breyttist bara ekki neitt. Það er aðeins of algengt að fólk rugli saman málstað og aðferðum við að koma málstað á framfæri. Hörður Torfason mætti til dæmis skilja þetta áður en hann tekur undir vitleysislega gagnrýni á þá sem köstuðu eggjum og gáfu ekki eftir gegn yfirgangi lögreglu. Eggjakast er vissulega ómarkviss mótmælaleið en hún sýnir allavega reiðina. Hún sýnir að fólkið sem kastar hefur fengið nóg (eða að það hafi gaman af því að kasta eggjum).

Yfirvöld á Íslandi hafa komist upp með að hunsa friðsöm mótmæli lengi og eru að reyna það nú. Ég held bara að það gangi ekki upp lengur. Friðarsinnar eru ekki líklegir til að byrja að fremja skemmdarverk ef ekki er hlustað á þá en fólk sem stendur frammi fyrir því að missa jafnvel allt sitt gæti gengið lengra þegar það er hunsað. Ríkisstjórnin þarf að hlusta og tala við fólkið áður en þetta gengur lengra.

Hættan á næstu mótmælum er sú að þar mæti lögreglumenn sem eru tilbúnir að slást einhverjum sem vilja slást við lögregluna. Það vantar að lögreglan hafi á sínum snærum einhverja sem geta róað fólk í þessum aðstæðum. Ég veit ekki til þess að það sé þekking á slíku innan hennar.