Ófriðsamleg mótmæli en þó án ofbeldis

Ég hef oft tekið þátt í friðsamlegum mótmælum. Þau hafa almennt snúist um að standa með skilti, hlusta á ræður og kannski kalla slagorð. Þessi mótmæli hafa aldrei skilað árangri. Það eina sem kom út úr þeim var að maður fékk ákveðna útrás og gat talið sér trú um að maður hafi allavega reynt.

Þegar eggjum er kastað á Alþingi er það ekki beinlínis friðsamlegar aðgerðir. En þetta er ekki ofbeldi og þar er varla um eignarspjöll að ræða þar sem góð rigning gæti skolað þessu burt. Síðan eru rúður brotnar. Það eru eignarspjöll og skemmdarverk. En það er ekki ofbeldi. Ofbeldi er beitt á fólk en ekki hús.

Það sama á við um mótmælin við lögreglustöðina í gær. Þar voru eignir skemmdar en mótmælendur beittu engan ofbeldi, þeir meiddu engan. Lögreglan hins vegar réðst á fólk með ofbeldi. Ekki var gefin nein viðvörun heldur ráðist á fólk, bæði þá sem voru að ráðast inn í húsið og aðra sem ekki höfðu farið yfir nein strik. Það hefði verið hægt að beita öðrum aðferðum.

Ég vil í lokin benda á yfirlýsingu frá félagi fanga. Fangelsin eru yfirfull. Hættulegir menn bíða afplánunar. Ekki séns að það hafi bara verið komið að því að Haukur ætti að afplána sinn dóm. Ég krefst rannsóknar.