Hvað ætlum við að fá?

Af forvitni ætla ég að spyrja hvað við ætlum eiginlega að fara fram á ef við sækjum um aðild að Evrópusambandinu? Hvað væri ásættanleg niðurstaða úr aðildarviðræðum?

8 thoughts on “Hvað ætlum við að fá?”

  1. Einmitt, gaman væri að fá almennilegar upplýsingar og faglega umræðu um þetta. Það hefur ekki verið leyft hingað til. Mér finnst það ólýðræðislegt í meira lagi að keyra okkur inn í Evrópusambandið á grundvelli fátæktar þegar aldrei hefur farið fram umræða meðal þjóðarinnar um það hvað þetta þýðir fyrir okkur.

  2. Væntanlega nýjan gjaldmiðil. Og það að hafa eitthvað að segja um stefnu og lög sambandsins í framtíðinni. Það vita allir að við náum engu sérstökum árangri sem ein lítil þjóð, en í samstarfi við Norðurlöndin gætum við vel haft áhrif. Þetta væri þó ekki samningamál í viðræðum þar sem þessi takmörk myndu nást með aðild sama hversu lélegur aðildarsamningurinn yrði (og að því gefnu að við myndum uppfylla efnahagsleg skilyrði fyrir upptöku Evru).

    Væri ekki líka eðlilegt að andstæðingar ESB aðildar myndu leggja það á borðið hvað væri svona hræðilegt við aðildina? Hvað í samningaviðræðunum myndi valda því að þeir myndu skipta um skoðun? Er það eitthvað eða er andstaða þeirra bara byggð á þeirri hugmynd að allt alþjóðasamstarf feli í sér afsal á fullveldi þjóðarinnar (einsog virðist vera tóninni í helstu íhaldsmoggabloggurunum)?
    Hvað myndu til dæmis andstæðingar ESB innan VG vilja sjá til þess að þeir gætu sætt sig við aðild? Eru þeir á móti aðild sama hvað kæmi útúr aðildarviðræðunum?

  3. Ég hef sjálfur aldrei talið mig andstæðing ESB svo það sé ljóst en það þýðir ekki heldur að ég sé fylgismaður aðildar. Ég hef enga afstöðu til svona óljóss máls.

    Ég held að allt tal um að taka upp Evru fari fram á frekar undarlegum grundvelli. Hvað er langt þangað til að við gætum yfirhöfuð tekið þátt í slíku? Væri möguleiki að taka þátt í annars konar myntbandalagi? Það hefur varla verið skoðað af alvöru.

    Ég veit ekki hvaða reglur við ætlum að hafa áhrif á og ég sé ekki að, jafnvel með Norðurlöndunum, við hefðum nægileg áhrif í stórum deilumálum.

    Mér sýnist þú, eins og svo margir ESB sinnar, snúa málinu við. Að sjálfssögðu á fyrst að segja hvað við viljum fá áður en við ákveðum að fara inn. Ef til dæmis Samfylkingin vill láta taka sig alvarlega í þessu þá ætti hún að leggja fram möguleg samningsmarkmið sem hún vill ná fram. Það er umræðugrundvöllur fyrir okkur sem er í raun að mestu sama um fullveldistalið.

  4. Ég er búinn að segja hvað við viljum með aðild. Það sem ég nefndi eru stærstu atriðin. Einnig má nefna hluti einsog að við hefðum betri og ódýrari aðgang að menntastofnunum í aðildaríkjunum, aðgang að styrkjakerfum o.s.frv.

    >Ég held að allt tal um að taka upp Evru fari fram á frekar undarlegum grundvelli. Hvað er langt þangað til að við gætum yfirhöfuð tekið þátt í slíku? Væri möguleiki að taka þátt í annars konar myntbandalagi? Það hefur varla verið skoðað af alvöru.

    Ég get ekki séð að það komi til greina að taka þátt í neinum öðrum myntbandalögum. Evran er fyrir okkur eini raunhæfi kosturinn og evrubandalagið er sennilega eina bandalagið sem myndi vilja fá okkur inn.

    Það myndi sennilega taka að minnsta kosti 4-5 ár að taka upp evru miðað við núverandi ástand. En málið er bara að krónan er dáin (einsog sést á lögunum um hindranir á fjármagnsflutninga) og eina leiðin til þess að hún missi ekki verðgildi sitt algjörlega eða til að hindra þessar sveiflur er að ríkisstjórnin setji sér það takmark að taka á endanum upp evru með því að sækja um aðild að ESB sem fyrst.

    Ég væri persónulega tilbúinn að fara inní ESB með saming, sem væri á svipuðum forsendum og samningur Svía. Það þyrfti væntanlega eingöngu að semja um tvö mál: landbúnað og sjávarútveg. Ég hef ekki nægilega sterka skoðun á þessum málefnum til að mynda mér nákvæmlega skoðun á því hver smáatriðin eigi að vera í viðræðunum. Þetta yrði væntanlega hlutverk einhverja teknókrata að ákveða.

    Ég skil einfaldlega ekki af hverju við getum ekki farið í aðildarviðræður. Grundvallartakmörkin hljóta að vera að vernda sauðvjárrækt og að hafa einhverja stjórn á fiskveiðum á okkar svæði áfram. Ég hef fulla trú á að slíkt myndi nást fram í aðildarviðræðum.

    Því aðalmálið í slíkum viðræðum hlyti að vera það að ESB myndi ALDREI semja við Íslendinga á forsendum, sem væru líklegar til að vera felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

  5. En þetta er eitthvað sem þarf að negla niður fyrst. Hvað sættum við okkur við? Mér finnst þetta ekkert vera neitt sem kemur fram í umræðunni. Við vitum öll að landbúnaður og sjávarútvegur er það sem skiptir helstu máli en hvað ætlum við að fá í gegn?
    Mín afstaða er raunar að VG ætti að setja á borðið tillögu um að flokkurinn styðji aðildarviðræður og komi að því að móta samningsmarkmið en lofi ekki að styðja niðurstöðuna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Í raun grunar mig að stuðningur við aðild eigi eftir að dala mjög þegar kemur í ljós hvað stendur til boða. Það þarf að hafa plan B og þá dugar ekki ESB/Evru tal.

  6. Já, það væri óskandi að VG myndi gera þetta. Það væri í raun það eina sem ég myndi biðja um ef ég réði einhverju í Samfó og það væri á borðinu að fara í ríkisstjórn með VG.

    Ég er reyndar ósammála um að stuðningurinn við aðild dali þegar að samningurinn liggur á borðinu. Þeir sem hafa galað hæst gegn aðild hafa nefnilega oft gripið til þess ráðs að gera ráð fyrir að útúr samningaviðræðum komi ekkert nema það allra versta sem hugsast gæti fyrir Ísland. Ég tel að svo verði alls alls ekki.

Lokað er á athugasemdir.