Ekki aðdáandi bensíns og áfengis

Ég er hvorki aðdáandi bensíns né áfengis en mér finnst þessi hækkun fráleit. Ég var á þessu áliti áður en ég vissi að þjóðin tapar tvöfalt meira vegna verðtryggingarinnar en ríkið græðir. Það væri bókstaflega betra að hækka tekjuskattinn meira en að fara í þessar aðgerðir.

En ég verð að spyrja: Hvernig getur það verið að hækkun á bensíni og áfengi leiði til kostnaðarauka hjá lánveitendum sem síðan verður til þess að þeir þurfa að hækka höfuðstólinn á lánum? Af hverju er engin umræðu um hver raunverulegur kostnaður lánveitenda er sem á að réttlæta verðtrygginguna?

One thought on “Ekki aðdáandi bensíns og áfengis”

  1. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef sagt lengi: tenging húsnæðislána við neysluvísitölu er mjög óeðlileg, vegna þess að lánsféð er ekki neyslufé. Þegar lánastofnun tekur ákvörðun um það hvort það eigi að veita slíkt lán liggur valið milli þess að lána þessum einstakling, lána einhverjum öðrum, leggja féð á hlutabréfamarkað eða verja því með einhverjum öðrum hætti til ávöxtunar. Það var aldrei valkostur fyrir stofnunina að taka þennan pening og kaupa fyrir hann brauð og bensín og þar af leiðandi á ekki að tengja lánsupphæðina við verðið á þessum hlutum. Ef það er virkilega nauðsynlegt að vísitölutengja húsnæðislán, er nær lagi að tengja þau við fasteignaverð, launavísitölu eða eitthvað þvíumlíkt.

    Oft er það reyndar nefnt að það sé nauðsynlegt að tengja lán við vísitölu neysluverðs vegna þess að innistæður lífeyrissjóða eru tengdar við hana. Því er ég ósammála, því að lífeyrir er einmitt neyslufé í eðli sínu, ólíkt húsnæðislánum.

Lokað er á athugasemdir.