Kreppuspilið: Skemmtilegt en ófullkomið

Við Eygló spiluðum Kreppuspilið núna áðan og við hæfi að dæma það. En það eru mjög blendnar tilfinningar sem fylgja því.

Fjöldi leikmanna: 2-4 (Alltaf gott að geta haft bara tvo að spila)
Gallar spilsins eru flestir út frá mekaník þess. Það treystir langmest á teningakast en hæfni ræður nær engu. Það verður fljótt mjög einhæft og ólíklegt að það sé spilað meira en einu sinni eða tvisvar á ári. Þetta ergir nörda meira en almenning.

Eitt sem skekkir spilamennskuna mjög þegar tveir spila er að afreksspjöld og hlutaspjöld eru þá hlutfallslega fleiri en ef þrír eða fjórir spila. Það hefði mátt hafa klausu í reglunum um að hafa slík spjöld í samræmi við fjölda spilara. En kannski er bara ágætt að hafa þetta mismunandi eftir fjöldanum.

Það að hafa fjóra reiti á spjaldinu þar sem ekkert gerist er algjör óþarfi.

Á móti kemur:
Kreppuspilið inniheldur ótal mörg fyndin spjöld sem segja mikið um tíðarandann. Frá því sjónarhorni er það verðmætt til framtíðar. Við hlæjum núna að því og vonandi getum við ennþá hlegið eða hrist höfuðið yfir því eftir tíu ár, tuttugu eða jafnvel fimmtíu. Það er góður grunnur fyrir gríni og spjalli. Krakkar geta örugglega verið með þó þau fatti kannski ekki brandarana.

Það var gaman að sjá hve fáar villur voru á spjöldunum og reglunum. Það er til fyrirmyndar.

Dómurinn er því að spilið sé skemmtilegt en endist stutt og treystir of lítið á hæfni. Það er hins vegar einhver besti minjagripur sem hægt er að hugsa sér um þessa tíma sem við höfum verið að upplifa núna.

(Eygló segir: “Þetta er þitt álit” þannig hún bloggar kannski sjálf um spilið og verður líklega aðeins jákvæðari)