Og þá geta þeir bara hypjað sig

Ég man ekki eftir að hafa séð nokkurn málstað verða að engu jafn fljótt og þegar ég las Fréttir áðan. Þessar stórkostlega herþotur sem eiga að verja Ísland fyrir öllum óvinum Bandaríkjanna eru vopnlausar. Allar ástæður ríkisstjórnarinnar byggðust á því að þoturnar væru hér til að verja landið fyrir ímynduðum óvinum eða þá að það væri fælingarmáttur í veru þeirra. Það er augljóslega enginn fælingarmáttur í vopnlausum vélum, það er meira svona einsog að segja „Allir velkomnir“ en sem betur fer eigum við enga óvini sem eiga eftir að ráðast á okkur varnarlaus.

Ekki það að vopnaðar þotur gætu gert nokkuð gagn gegn þesslags óvinum sem ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að gætu komið hingað, hryðjuverkamenn myndu nefnilega seint koma hingað í rússneskum MIG-þotum (einsog í Top Gun) eða á orrustuskipum.

Þegar rök ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru algerlega fallin þá getur herinn bara farið, eða hvað? Raunverulegar ástæður fyrir veru hersins hér á landi er að sjálfsögðu ekki að verja það fyrir óvinum, það er til að halda uppi atvinnulífi á Suðurnesjum.

Í þessu máli hefur ríkisstjórnin stundað það að gera friðarsinna að óvinum Suðurnesja en staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur brugðist Suðurnesjamönnum að öllu leyti. Það hefur verið alveg ljóst frá því að Davíð Oddsson varð forsætisráðherra að herinn myndi fara en engin ríkisstjórn undir hans stjórn hefur reynt að undirbúa Suðurnesin undir þetta með því að efla atvinnulíf þar. Vinstri Grænir voru með það að markmiði fyrir (allavega) þessar kosningar að efla atvinnulíf þarna en allir aðrir flokkar hunsuðu það sem liggur í augum uppi, herinn fer.