Jæja, ég fór á landsráðsstefnu Samtaka Herstöðvaandstæðinga í dag í Þjónustumiðstöð aldraðra. Fyrir hádegi voru bara almenn fundarstörf, lítið áhugavert þannig séð. Það kom mér samt verulega á óvart að Stefán skyldi ekki stinga upp á mér í miðnefnd, ég hef nú þegar verið dyggur félagi í rúma viku og fæ ekkert embætti.
Eftir hádegi var málþing sem bar titilinn „Þegar herinnkvaddi og sat sem fastast“. Áhugaverðasti fyrirlesarinn var Steingrímur Ólafsson sem fjallaði um fréttaflutning í tengslum við hermálið í vor. Það var reyndar mjög undarlegt að fá svona frá Framsóknarmanni og fyrrverandi fréttamanni útlistingar á þeim mönnum sem eru í erlendu fréttunum á íslenskum fjölmiðlum, það passaði alveg nákvæmlega við það hvernig friðarsinnar tala um þá. Eiginlega bara staðfesting. Gunnar Karlsson kom með áhugaverða punkta um skoðanir Bjarna Ben á hermálunum en ég var ekki annars fullkomlega sammála honum.
Hápunkturinn fyrir mér var samt Pétur Pétursson þulur, honum var boðið að líta þarna inn (hann býr í húsinu). Honum var veit heiðursskjal en hann truflaði einmitt Stefán í miðri ræðu og skammaði hann fyrir að kalla hann einstakling, finnst það ofnotað orð. En Pétur tók til máls eftir ræðurnar og hélt í raun heilmikla ræðu óundirbúna. Hann tók reyndar nokkrum sinnum beygjur út fyrir umræðuefnið sjálft, lét meðal annars í ljós álit sitt á útvarpsstjóra, en var alveg stórskemmtilegur.
Í lok dagsins þá kom Þóra Fjeldsted sem stendur að heimildarmyndinni um Helga Hóseasson og bauð Herstöðvaandstæðingum á myndina enda þykir Helga vænt um málefnið. Þetta var mjög indælt. Ég benti henni Þóru á viðtalið hennar Þórunnar Hrefnu við Helga sem við birtum í fullri lengd á Vantrú í gær. Bendi annars öllum á þetta viðtal, það er mjög fróðlegt.
Ég tók annars eitthvað af myndum sem enda einhverjar á netinu bráðum.